30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er sammála hæstv. forsætisráðherra um það, að rjettast sje að taka ekkert tillit til þegins sveitarstyrks, er menn ganga í hjónaband. Það yrði heppilegra, því að nú kemur stundum svo niður, að sveitunum er gert rangt til, t. d. þegar maður er gamall og kominn að því að þiggja af sveit og gengur að eiga kvenmann, sem er á sveitarbarmi, eða í sveitarskuld, og sveit hennar strikar skuldina út, til þess að koma henni af sjer. Þessa veit jeg dæmi, og er presturinn ekki í neinni sök í þessu tilfelli.

Þá var það annað atriði, er jeg vildi drepa á. Jeg fæ ekki skilið, hvers vegna löggjöfin og frv. sleppir alveg svaramönnunum, skoðar þá sem ábyrgðarlausa. Svaramenn eiga að hafa ábyrgð, ekki einungis kristilega og siðferðilega, heldur og fjárhagslega, og er ranglátt, að ábyrgðin lendi á prestunum einum, en ekki á þeim.

Þegar karlmaður og kvenmaður, hvort úr sínum hreppi, giftast og þau eru rjett á sveitarbarmi, þá væri rjett að heimta, að hvor svaramaðurinn væri úr sínum hreppnum. Þá gæti sá hreppur, sem hag hefir af hjónabandinu, ekki ráðið einn, heldur kæmi einnig til kasta hins, og yrði þá ef til vill ekkert úr hjónabandinu.

Jeg vildi með þessu að eins gefa bendingu um, hvort ekki mætti koma ábyrgðinni að einhverju leyti yfir á svaramennina.