31.08.1917
Neðri deild: 48. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Framsm. (Stefán Stefánsson):

Þetta frv. er hingað komið frá háttv. Ed. Og hefir verið athugað hjer af mentamálanefndinni. Leggur hún það til, að frv. verði samþ., þar sem auðsætt er, að það sje til mikilla bóta frá núgildandi lögum. Nefndin telur sem sje ábyrgðina á því að gefa saman hjón, er standa í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, svo harða og ósanngjarna, að ekki sje við unandi. Hún álítur, að nægilegt sje að láta presta eða sýslumenn, sem gerast sekir um þetta, borga að fullu skuld þá, sem persónurnar kunna að standa í við sveitina, og þar að auki greiða sekt, 50—100 kr. Hitt telur nefndin gersamlega óviðeigandi, að varpa á prestinn allri ábyrgð á framfærslu þeirrar fjölskyldu, sem stofnað kann að vera til með slíkum hjónaböndum, enda hafa nokkrir prestar orðið mjög hart úti vegna þeirra ákvæða, en það, sem hjer er farið fram á með frv., kemur nefndinni saman um að ekki geti talist verulega óeðlilegt eða ósanngjarnt. En svo eru komnar fram brtt. við frv. frá hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem jeg fyrir nefndarinnar hönd get ekki sagt neitt ákveðið um að svo stöddu. Nefndin hefir ekki átt kost á að ræða þær, af því að þær eru nú fyrst lagðar fram. En í fljótu bragði sýnast mjer brtt. þannig vaxnar, að hjer geti komið til álita, hvort um eiginlegar brtt. sje að ræða eða alveg nýtt frv. Jeg tel því dálítið vafasamt, hvort þær geti komið til umr. nú. En vonandi fær maður að heyra álit háttv. flm. (E. A.) sjálfs um það atriði og þá einnig hæstv. forseta.