06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Það má má ske virða það háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) til vorkunnar, þótt honum finnist þessar sveiflur í löggjöfinni nokkuð hastarlegar. Því að það skal játað, að þetta er fremur óveruleg breyting, sem hjer er um að ræða, bæði að efni til og formi á frv. En mentamálanefndin lítur svo á, að rjett sje að fallast á breytinguna. Ástæður fyrir sjálfu frv. hefi jeg áður tekið fram og tel því óþarft að taka þær upp aftur, enda standa þær sjálfsagt ljóst fyrir öllum háttv. þingdm., og hvað brtt. hv. 2. þm. Árn. (E. A.) snertir, þá gerði hann einnig mjög glögga grein fyrir þeirri breytingu, við 2. umr. málsins.

Ef hv. þm. Mýra. (P. Þ.) nægja ekki þessar skýringar á málinu, hvað aðalbreytinguna snertir frá hv. 2. þm. Árn. (E. A.), ja — þá veit jeg ekki, hvert hann ætti að leita, til þess að fá þær betri. Háttv. sami þm. (P. Þ.) var að tala um það í ræðu sinni, að hann vildi ekki sporna við hjónaböndum, þegar svo stæði á, að vilji væri sæmilegur á báðar hliðar. En það er líka síður en svo, samkvæmt breytingunni, sem um er að ræða. En hver hefir reynslan venjulega orðið, þegar persónum hefir verið varnað þess að giftast? Þá hafa þau aukið kyn sitt fyrir utan landslög og rjett.

En sú ábyrgð, sem hvílir á prestunum, er hvorki svo sjálfsagt fellur sú ábyrgð í framkvæmdinni á þá í flestum eða öllum tilfellum, án þess, að þeir geti að nokkru leyti við henni búist, og að láta presta, að eins vegna ókunnugleika þeirra, vera skylda til að framfæra þungar fjölskyldur um mörg ár, hljóta allir að viðurkenna að gengur óhæfu næst.

Hvað hitt snertir, sem hv. þm. Mýra. (P. Þ.) talaði mikið um, að sveitirnar væru að ýta byrðinni, hver af sjer, yfir á aðra, þá finst mjer þetta frv. gera ekki neina verulega breytingu frá því, sem nú er á sveitfestismálum yfirleitt.