15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

128. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg þarf eigi að svara því miklu, sem komið hefir fram í umr. Háttv. 1. landsk. þm. (H. H.) lýsti yfir því, að hann myndi greiða atkvæði á móti frv. Jeg býst nú ekki við því að geta snúið honum frá villu hans vegar, og skal því eigi deila neitt við hann.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) fann að þeirri brtt. nefndarinnar, að fella úr ákvæðið um, að einn bankastjóranna skyldi vera lögfræðingur. Í tilefni af þessari athugasemd vil jeg taka það fram enn á ný, að nefndin er þessu ákvæði ekki mótfallin. En frv. þetta er að eins bráðabirgðabót. Það hefir komið til orða hjer í þinginu, að bankastjórarnir þyrftu að hafa sjerþekkingu á aðalatvinnuvegum landsins. Þótti nefndinni því rjett, að láta ákvæði þetta, um að einn bankastjóranna skyldi vera lögfræðingur, bíða þar til gagngerð endurskoðun færi fram á stjórn bankans.

Ef háttv. þm. Ak. (M. K.) ætlar sjer að koma fram með breytingartilllögu við frumvarpið til 3. umræðu, þætti nefndinni æskilegast, að hann bæri sig saman við hana um þær.