24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

139. mál, útmælingar lóða

Frsm. (Einar Arnórsson):

Hv. þm. N. Þ. (B. Sv.) hefir nú sagt margt ljótt af þessu frv., þótt hann hafi hins vegar viðurkent, að það hafi batnað talsvert í meðferð nefndarinnar. Hann talaði fyrst um þá rjettarskerðing, sem frv. hefði í för með sjer. Það er alveg rjett athugað hjá hv. þm. (B. Sv.), að það getur leitt af sjer rjettarskerðing í garð einstakra manna, sem eiga mikið ónotað af lóðum. En þar hefir nefndin líka bætt mikið úr, því að henni fanst ekki ástæða til að láta heimildina ná til iðnaðar, heldur að eins til sjávarútvegs og verslunar, eins og lögin frá 1891.

Árið 1891, þegar lögin frá 13. mars voru sett, þá var ástæðan fyrir því, að útmælingar til verslunar voru heimilaðar, sú, að menn vildu með þessum lögum kippa verslun landsins í það horf, sem hún er komin í nú. Með þessum ákvæðum voru auðvitað rjettindi manna yfir eignum sínum nokkuð skert, en það þótti góð latína þá, þar sem talið var, að það miðaði til þjóðarheilla, að almenningsheill krefðist þess. Þetta náði ekki til sjávarútvegsins þá, eins og meiningin er með þessum lögum, sem hjer liggja fyrir.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) fór mjög hörðum orðum um frv., eins og það kom frá háttv. Ed. Jeg skal játa, að í þeirri mynd var það mjög óaðgengilegt, og má það þó undarlegt heita, þar sem heil nefnd, sjávarútvegsnefndin, fjallaði um málið, og í henni á sæti lögfræðingur, sem er sýslumaður í einu af þeim kauptúnum, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði að mundu verða mjög hart úti, ef frv. næði fram að ganga.

Nefndinni virtist ekki frágangssök að láta þetta ná til sjávarútvegs, þar sem það er alkunnugt, að mikið af lóðum, sem liggja vel við til útgerðar, eru í einstakra manna höndum. Þessir menn meina svo öðrum að reka þar útgerð, annaðhvort með bláberu banni, eða með einhverjum afarkjörum, sem ómögulegt er að ganga að.

Svo framarlega sem löggjöfin fellst á, að almenningsheill krefjist, að að sjávarútveginum sje hlynt eftir föngum, þá er þetta ekki meira stjórnarskrárbrot en lögin frá 13. mars 1891. Í raun og veru er hvorugt þetta brot á stjórnarskránni, ef mönnum kemur saman um, að almenningsheill heimti slíka ráðstöfun, því að í báðum tilfellum er ætlast til, að sá, sem lætur lóðina af hendi, fái fult endurgjald fyrir.

Mjer skildist á ræðu háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að hann gengi út frá því, að sá, sem lætur útmæla sjer lóð, rjeði einn öllu um skilmálana. Þetta er misskilningur hjá háttv. þm.

(B. Sv.), því að til eru reglur í lögunum frá 1891, sem skipa fyrir um þetta.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) nefndi það í þeirri rökstuddu dagskrá, er hann bar fram, að eftir þessu frv. gætu bæði útlendir og innlendir menn sölsað undir sig eignir annara. Þetta er væntanlega líka misskilningur hjá háttv. þm. (B. Sv.), því að það stendur skírum stöfum bæði í frv. og í stjórnarskránni, að fult endurgjald skuli koma fyrir. Þó er í þessu frv. sú rýmkun gerð frá því, sem stendur í lögunum frá 1891, að nú ræður sá, sem lóðin er mæld frá, hvort hún er heldur tekin til eignar, það er að segja seld, eða einungis á leigu.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði enn fremur um það, að þessi lög mundu verða misbrúkuð. Um það er auðvitað ekki gott að segja fyrirfram. En ekki er mjer kunnugt um, að heimildin frá 1891 hafi verið mikið misbrúkuð. Og þar er þó um sömu takmörkun að ræða. Jeg tel víst, að hún hafi miklu heldur verið til mikils gagns, þar sem hún átti mikinn þátt í að endurreisa frjálsa verslun hjer á landi.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) sagði í ræðu sinni, að ef þetta frv. yrði að lögum, þá mundi »leppmenskan« blómgast hjer meir en áður hefir átt sjer stað.

Jeg skal að vísu ekki neita því, að það er með þessi lög eins og öll önnur, að það má fara í kringum þau, ef hjerlendir menn vilja gerast svo lítilþægir að vera leppar fyrir útlendinga.

En það var eitt atriði í þessu sambandi, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) skaust yfir í ræðu sinni. Og það er, að eins og mönnum er kunnugt eiga útlendingar mikið af lóðum hingað og þangað úti um landið, sem þeir hafa sölsað undir sig áður fyr fyrir lítið verð. Ef nú þetta frv. verður að lögum, þá heimila þau einmitt mönnum að láta mæla sjer út eitthvað af þessum lóðum, sem þessir útlendu herrar hafa náð tangarhaldi á. Jeg vil líka geta um það, að í reglunum frá 1891 um útmæling lóða er það skýrt tekið fram, að útmæling á lóð á móti vilja eigandans skuli því að eins eiga sjer stað, að það sje bersýnilegt, að ekki náist samkomulag um frjálsa afhendingu á lóðinni. Og um útmælingar eftir þessu frv. fer eins.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) talaði um það í ræðu sinni, að þessi heimild næði ekki til Reykjavíkur. Þar er því til að svara, að þetta ákvæði frv. er óbreytt tekið upp úr lögum frá 13. mars 1891. Ástæða til þessa ákvæðis þar mun hafa verið sú, að löggjafarvaldinu hefir ekki sýnst nein þjóðarnauðsyn að láta þetta ákvæði ná til Reykjavíkur. — Þá talaði háttv. þm.

N.-Þ. (B. Sv.) enn fremur um það, að ef útmæld væri samkvæmt þessu frv. lóð, sem kvaðir eða veð hvíldu á, þá gæti það valdið ruglingi. Það er að vísu ekki tekið fram í lögum frá 1891, en er hins vegar sjálfsagður hlutur, að sá, sem á veð í lóðinni, getur engu tapað við það, þó að lóðin verði seld. Auk þess er það tekið fram í lögum um framkvæmd eignarnáms, sem nú er einmitt að fara frá þinginu, hvernig farið skuli með veðrjett og önnur höft í lóð, sem tekin er eignarnámi. Jeg held, að eftir þessu frv. verði, að öllu samanlögðu, betur trygð rjettindi lóðareigenda en eftir lögum frá 1891. — Í fyrsta lagi mega þeir nú kjósa, hvort þeir vilji heldur selja lóðina eða leigja. Og í öðru lagi geta þeir heimtað, að leigan skuli metin á ný á 10 ára fresti, ef þeim líka ekki leiguskilmálarnir. Þetta mat skulu 2 dómkvaddir menn framkvæma nú, og ef málsaðiljar eru óánægðir með það mat, þá má heimta yfirmat samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Aftur á móti eftir núgildandi lögum á lögreglustjóri að meta, ásamt 2 öðrum til kvöddum mönnum. Það er ætlast til, að þetta sje fullnaðarmat, og því ekki hægt að heimta yfirmat. — Jeg held, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) þurfi ekki að vera neitt hræddur um, að eignarrjetturinn verði háskalega takmarkaður samkvæmt þessu frv.

Háttv. þm. (B. Sv.) talaði líka um það, að landið sjálft mundi geta orðið hart úti, þar sem það ætti margar slíkar lóðir.

Það er að vísu satt, að landið á mikið af lóðum, sem ekki er undanþegið, en þetta er engin röksemd út af fyrir sig, því að jeg get ekki skilið, að landið sje á neinn hátt rjetthærri eigandi en aðrir. Aðalatriðið í þessu máli er það, hvort hjer sje um almenningsheill að ræða eða ekki. Sje svo, þá er það í samræmi við stjórnarskrána, en annars ekki. Jeg hygg þó, að hjer sje mun betur um hnútana búið en í lögunum frá 13. mars 1891. Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta mál, en vil að eins geta þess, að þar sem þetta frv. er í öndverðu komið frá sjávarútvegsnefnd í háttv. Ed., þá geri jeg ráð fyrir, að það hafi í för með sjer töluverðar umbætur fyrir þá atvinnugrein. En hins vegar fellst jeg á það með hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að eins og það í fyrstunni kom þaðan var það mjög óaðgengilegt. Enda hefir háttv. sami þm. (B. Sv.) játað, að það hafi batnað mikið hjá nefndinni hjer. Hvað þessari rökstuddu dagskrá líður, sem háttv. þm. (B. Sv.) ber fram, þá finst mjer, að hún geti ekki orðið samþykt, vegna þess, hve hún er freklega orðuð. Þar er tekið svo til orða, að menn geti sölsað undir sig eignir annara fyrir lítið endurgjald. Þetta finst mjer ekki viðeigandi tóntegund. Því að lögin gefa alls ekki tilefni til, að þetta sje mögulegt. Það er eins vel gengið frá þessu atriði og á annað borð er hægt í lögum.

Annars er mjer ekkert persónulegt keppikefli, að þetta frv. nái fram að ganga, en þeir, sem bera hag sjávarútvegsins sjerstaklega fyrir brjósti, æskja þess mjög.