11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Þórarinn Jónsson:

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 269. Háttv. framsm. nefndarinnar (B. J.) gaf ávísun á formann nefndarinnar, og tek jeg því þakksamlega. Jeg skal í stuttu máli gera grein fyrir, hvernig stendur á, að brtt. er komin fram, og þá einkum með tilliti til þess, hvernig nefndin virðist líta á málið, eftir nál. að dæma.

Á aukaþinginu í vetur sá fjárveitinganefndin sjer ekki fært að taka upp þetta ákvæði um skólann, vegna dýrtíðar, Jeg þykist vita, að stjórnin hafi tekið tillit til þessa, þegar hún tók upp að veita uppbótina fyrir 1916. Þess vegna finst mjer einkennilegt, er nefndin nú leggur til að draga dýrtíðaruppbót til skólanna frá öðrum dýrtíðaruppbótum. Sjerstök ástæða er til að veita uppbót þeim skólum, er sjá nemendum bæði fyrir fæði og húsnæði.

Dýrtíðaruppbótin til kennaranna var veitt á nafn, og hefði það mátt teljast gerræði af skólastjórninni, ef hún hefði tekið þann styrk til sín. Skólinn sjálfur hefir því ekki haft bein not dýrtíðaruppbótar kennaranna, til að standast ýms aukin gjöld, sem af dýrtíðinni hafa leitt.

Jeg heyri það, að háttv. nefnd vill einkum eða eingöngu miða styrkhækkunina við verðhækkun á eldsneyti til skólanna. En svo stendur á, að háttv. nefnd mun hafa haft fyrir sjer ranga skýrslu, er hún ákvað styrkhækkunina til Blönduósskólans. Sjest þetta glögglega, þegar bornir eru saman reikningar skólans 1915 og 1916, á því, hve mismunurinn er lítill á eldiviðarverðinu bæði árin, og þó vitanlegt, að kol voru miklu dýrari síðara árið en hið fyrra; auk þess er mjer það kunnugt, að síðara árið varð skólinn að kaupa kol hjer í Reykjavík, sem kostuðu hátt upp í 3000 kr., komin til skólans. Að vísu gekk eitthvað af kolum þessum til matreiðslu í heimavistum, og ekki hægt að segja nákvæmlega, hve mikið það hafi verið. Gjaldkeri skólans hefir sjálfur skýrt mjer frá því, að eldiviðarverðið hafi ekki verið rjett tilfært á áætlun þeirri, er lá fyrir fjárveitinganefnd, heldur hafi það verið sett þar oflágt.

Jeg er þakklátur hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) fyrir undirtektir hans undir málið, og þarf því einu við að bæta það, sem hann tók fram, að auk þess sem þar skortir algerlega leikfimihús, er þar og tilfinnanlegur skortur á innanhússmunum, og bókasafnið hefir ekki verið hægt að efla, sökum fjárskorts, eins og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) tók fram.

Þegar jeg gerði brtt. mína, vildi jeg fara sem allra hóflegast í sakirnar, sökum þess, hvernig fjárhagur landsins horfir nú við. Jeg færði því nokkuð niður upphæð þá, sem er í stjórnarfrv., ekki þó af því, að eigi sje fylsta þörf á, að hún væri veitt öll, og að sanngirni mæli með því, heldur vildi jeg fara miðlunarveg og rjetta fram höndina til samkomulags við háttv. fjárveitinganefnd; og jeg vildi ekki fara fram á neitt handa þessum skóla, sem ranglátt væri gagnvart hinum skólunum. Er honum þó óneitanlega þörf á meiru fjárframlagi en jeg mælist til í brtt.

Að öðru leyti ætla jeg að geyma að fara fleirum orðum um málið, þangað til jeg hefi heyrt, hvað háttv. formaður fjárveitinganefndar (P. J.) hefir fram að bera.