21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Stjórnin hefir ekki viðurkent, að hún hafi orðið að sæta neinum ókjörum með innkaup á vörum, enda verður það ekki sagt með sanni. Þó að 2 skip tefðust nokkuð lengi fyrir vestan haf í vetur, þá munar það ekki eins miklu á allri versluninni eins og menn halda. Hitt munar meiru, hvað skipin eru dýrari til Englands en til Ameríku. Hernaðarvátryggingin er stærsti útgjaldaliðurinn, en hún er tiltölulega lítil til Ameríku. Og jeg sýndi fram á það, að tafirnar vestra hefðu ekki verið stjórninni að kenna. Eins og hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) tók fram urðu allir samningar að fara fram í Lundúnum. Það var ekki við stjórn Bandaríkjanna, sem þurfti að semja, heldur eingöngu við stjórn Breta. Þá talaði háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um það, að 1. sendimaðurinn í Ameríku hefði haft lítið og ófullkomið umboð. Þetta er ekki rjett. Hann hafði einmitt ríflegt og ótakmarkað umboð, miklu ríflegra og betra en aðrir sendimenn hafa. Um annan sendimanninn gat hann þess til, að hann hefði ekki verið vel valinn. En eins og jeg hefi áður sagt, sýnir síðasta reynsla alt annað. Árni Eggertsson fekk leyfi til að bregða sjer heim til sín og er ekki tekinn til starfa enn þá. Hann á því engan þátt í þessari reynslu. Þegar hann tekur til starfa, má búast við, að alt verði enn fastara og betra, þegar 2 menn standa á bak við. Háttv. þm. (G. Sv.) virðist vera vantrúaður á það, að »Island« hafi komið með fullfermi. En á því er enginn efi. Jeg spurði skipstjórann að því, og játaði hann, að svo væri. Eftir 15. júlí var ekki leyft að flytja neitt frá Ameríku og ómögulegt að fá neina undanþágu frá því. Það var því ekki um annað að gera fyrir skipin en að sigla af stað þann dag, með það, sem þau voru búin að ná í, til þess að þau yrðu ekki tept af útflutningsbanninu. Það var alveg ómögulegt að þoka þessu neitt til, hvað mikið sem prjedikað hefði verið um legu landsins.

Jeg ætla ekki að tala mikið um skipakaupin, en bíð rólegur dóms síðari tíma um þau. Jeg tel þau hafa tekist mjög vel, og landið getur átt þessi skip að ófriðnum loknum. Hvort sem stjórninni er það að þakka eða ekki, þá er jeg sannfærður um, að það eru bestu skipakaupin, sem gerð hafa verið hjer á landi í vetur.

Ekki er heldur ástæða til að fara mikið út í matvælatalninguna í maí í vor. Það virðist ætla að þvælast fyrir háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) í lengstu lög, en jeg vona, að aðrir skilji, hvað stjórnin ætlaði sjer með þessu, og sjái, að það var skynsamleg ráðstöfun. Um skilnað landsverslunarinnar frá stjórnarráðinu talaði hæstv. atvinnumálaráðherra. Mjer er óhætt að segja, að það er nú komið í það horf, sem þingið ætlast til. Stjórnin hefir eftirlit með öllum samningum um innkaup, en verslunin tekur svo við og annast um vörurnar og úthlutun þeirra eftir það. Vel getur verið, að einstöku menn rekist enn þá upp í stjórnarráð með ýmsar fyrirspurnir, en við því getur stjórnin ekki gert. Enda er það ekki alment, og menn venjast smám saman af því, þar sem þeim þá ávalt er vísað til verslunarskrifstofunnar. Það er ekki heldur rjett, að stjórnin hafi ekki unnið með kaupmönnum. Hún hefir einmitt haft aðstoð þeirra, bæði við vörukaup, úthlutun o. fl.

Það er eðlilegt, að rætt sje um forstöðu landsverslunarinnar, og að háttv. þm. óski skýringa um hana, en mjer þykir heldur snemt að tala um ráðningu nýja forstöðumannsins að svo stöddu. Þess skal jeg þó geta nú þegar, að stjórninni hefir auðvitað ekki komið til hugar að láta manninn hafa tvær stöður.

Jeg er sammála háttv. þm. Stranda. (M. P.) um það, að engin ástæða sje til að ræða áætlanir fjárlaganna að þessu sinni. Það heyrir fremur undir 2. umr. Jeg býst við, að það verði þá rætt og að stjórnin verji þá sinn málstað. En ekki er gott um það að segja, hvor hefir á rjettara að standa í því efni, stjórnin eða þingnefndirnar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að taka fleira fram, en álít, að ráðuneytið hafi nú skýrt þau atriði, sem skýringa var krafist á, og vona, að síðar skýrist, hvor rjettara hefir í ágreiningsatriðunum.