10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

110. mál, fátækralög

Þorleifur Jónsson:

Sennilega eru ýmsir gallar á fátækralögunum, er taka þyrfti til athugunar, en mjer þykir það að tillögunni, að ekki skuli vera bent á nein sjerstök atriði. Að vísu mintist háttv. flm. (J. B.) í ræðu sinni á ýmsa galla, t. d. um óverðskuldaðan missi mannrjettinda greinarmunarlaust, sem jeg tek undir með honum, en fram hefði þurft að koma greinilega í tillögunni.

Það er eitt atriði, sem jeg vil leyfa mjer að taka fram í þessu sambandi, sem sje, hvort ekki mundi rjett að stytta sveitfestitímann; hann er nú hjá oss 10 ár, miklu lengri en annarsstaðar á Norðurlöndum. Í Danmörku er sveitfestitíminn 5 ár, í Noregi 2, og í Svíþjóð er sveitfestin bundin við dvölina. Jeg hygg, að fátækraflutningur stafi oft af þessari löngu sveitfesti, en, eins og háttv. flm. (J. B.) tók fram, er sá flutningur oft óheppilegur. Jeg verð að telja, að þessi langi sveitfestitími feli í sjer misrjetti. Sveitirnar ala fólkið upp; síðan fer það í kaupstaðina, en þegar það brestur fje, atvinnu eða heilsu, þá er það sent á fæðingarhreppana. Það mun mega telja nægilegt, að sveitirnar ali fólkið upp, þótt þær taki ekki við því, þegar fjárþröng þrengir að. Það má telja sanngjarnast, að þeir staðir, sem fólkið hefir unnið í, framfæri menn á elliárum þeirra eða þegar þá brestur atvinnu. — Þetta atriði vil jeg mælast til að stjórnin taki til greina.

En, eins og jeg gat um, þykir mjer till. ekki nógu skýr; ekki svo að skilja, að jeg vilji bregða fæti fyrir hana. Að eins vil jeg mótmæla þeim orðum háttv. flm. (J. B.), sem hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að þm. væru ekki sendir hingað til að gera rjett. Þau tel jeg óviðurkvæmileg og ástæðulaus, því að vitanlega gera þm. það, sem sannfæring þeirra býður þeim.