23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

110. mál, fátækralög

Pjetur Ottesen:

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, ekki af því, að jeg sje ekki að ýmsu leyti samþykkur því, sem í nefndarálitinu stendur. En jeg vildi þó láta athuga nánar ýms atriði í fátækralögunum, sem mjer þykja ekki vera eins góð og heppileg og æskilegt væri, sjerstaklega viðvíkjandi rjettindamissi þeirra, sem af sveit þiggja. Það er leiðinlegt, að menn skuli verða að missa mannrjettindi sín, þótt þeir t. d. ali upp fleiri börn en þeir geta alið önn fyrir hjálparlaust, eða verði hjálparþurfar af veikindum eða öðrum óviðráðanlegum orsökum. Jeg er því með tillögunni, að því leyti sem mjer þykir ástæða til að breyta þessu atriði í lögunum. Þess vegna skrifaði jeg undir nál. með fyrirvara.

Hv. frsm. (M. G.) sagði, að það væri erfitt að draga hreina línu á milli þeirra, sem yrðu þurfalingar af verðskulduðum og óverðskulduðum ástæðum. Jeg er honum sammála um það, að þetta sje erfitt. En samt sem áður er það óviðeigandi, að þeir, sem enga sök eiga á því, að þeir eru upp á aðra komnir, skuli verða að gjalda slóðanna, sem liggja á liði sínu og komast á sveit, af því að þeir nenna ekki að sjá fyrir sjer sjálfir. Helst vildi jeg, að enginn þyrfti að missa neins í af rjettindum sínum þótt hann þiggi af sveit.

Háttv. frsm. (M. G.) hjelt því fram, að þess væru mörg dæmi, að fullhraustir menn, sem ættu eitt barn, þægju af sveit. Jeg held, að þau dæmi sjeu ekki mörg. Og þótt þau sjeu til, þá treysti jeg því, að þeim fækki heldur en fjölgi, eftir því sem sjálfstæðishvötin vaknar og eykst í brjóstum manna.

Sveitfestitímanum hefir oft verið reynt að breyta hjer í þinginu. Háttv. þm. Barð.

(H. K.) bar fram frv. í Ed. 1915, þar sem hann fór fram á, að menn ættu þar sveit, er þeir hefðu dvalið lengst er þeir urðu styrkþurfar. Því var breytt í 5 ár í nefnd í Nd., en fjell síðan með litlum atkvæðamun. Sjest af þessu, að skoðanir manna eru mjög skiftar um þetta atriði. Jeg fyrir mitt leyti væri með því að stytta þennan tíma. Þótt lögin sjeu ekki eldri en þetta, þá hefir samt margt breyst síðan þau voru samin. Nú er komið miklu meira los á fólk en áður var, og það er varla rjettlátt að láta fæðingarhrepp mannsins taka við honum sem ómaga, þótt hann hafi aldrei dvalið þar neitt. En eins og nú er er það oftast fæðingarhreppur, sem þurfalingar lenda á, því að menn vinna sjer sjaldnast sveit annarsstaðar. Það er líka leitt, ef hreppsnefndir verða að fara að ýta við mönnum, sem hætt er við að þurfi á sveitarhjálp að halda, þegar þeir eru búnir að dvelja t. d. 9 ár í hreppnum. Það mundi koma sjaldnar fyrir, ef sveitfestitíminn væri styttri. Þá er minna í húfi fyrir sveitarfjelögin.

Þá er oft erfitt að ná til feðra óskilgetinna barna. Má vera, að fyrir því sjeu nógu sterk ákvæði í lögunum, þótt erfitt veitist að framkvæma þau, en það væri ástæða til að athuga betur.

Í 42. gr. fátækralaganna er mælt svo fyrir, að fæðingarhreppur óskilgetins barns skuli teljast þar, sem móðirin á lögheimili. Ef hún á ekkert lögheimili, eða einhver vafi leikur á, hvar það sje, þá er fæðingarhreppurinn þar, sem barnið fæðist. Jeg veit til þess, að þrætur hafa spunnist út af þessu.

Af þessum ástæðum vildi jeg leggja til, að málinu væri vísað til stjórnarinnar, eins og tillagan fer fram á, og að stjórninni væri falið að leita álits hreppsnefnda um land alt á fátækralögunum í heild sinni. Jeg veit, að frá þeim mundu koma mjög sundurleitar skoðanir. En líklegt er, að hægt væri að finna einhvern heildarþráð, sem væri sameiginlegur hjá þeim öllum og mætti leggja til grundvallar nýrri endurskoðun á lögunum. Þótt vel væri til laganna vandað í upphafi, þá hefir þó brytt á óánægju með þau í ýmsum áttum, bæði í ræðu og riti. Jeg man meðal annars eftir langri ritgerð um það í Ísafold fyrir nokkru.

Jeg greiði því atkvæði með tillögunni og legg til, að stjórnin leiti álits hreppsnefnda um málið.