07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

137. mál, siglingafáni fyrir Ísland

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg þarf eigi að leiða rök að því hjer, að Ísland eigi fullan rjett á því að hafa sinn eiginn farfána, jafngildan farfánum annara ríkja, og rjett til þess að sigla undir honum einum, hvar sem er um höf heimsins. Jeg þarf eigi að leiða rök að þessu fyrir þá sök, að hjer er enginn innan vjebanda þingsins, er eigi sje fullkomlega sannfærður um það áður.

Jeg þarf eigi heldur að leiða rök að því, að rjettmætur sje brennandi áhugi á því að fá hann þegar, því að jeg veit, að hjer er enginn sá, að hann hafi eigi áður fullráðið við sig að veita þessu máli fast fylgi.

Mjer er engin þörf að telja rök til þess, að nauðsyn sje á íslenskum farfána, því að hún hefir ætíð verið rík. En nú er lífsnauðsyn, að fram gangi málið. Ber það einkum til nú, að alt er á hverfanda hveli á þessum ófriðartímum, og veit engi, hve nær oss verður meinað að sigla undir þeim fána, sem vjer höfum hingað til haft, með samþykki annars ríkis, þess er fánann á, nje heldur veit nokkur maður, hve nær tekið getur fyrir alla aðflutninga af þeirri ástæðu. Nú er svo langt að ná til konungs, að eigi yrði bætt úr í svip, ef þetta bæri að höndum, og er því eigi seinna vænna að bera fram þessa alþjóðarkröfu, svo að vjer náum fullum rjetti vorum hjer um.

Fullveldisnefndin hefir borið fánamálið fram með þessum hætti sakir þess, að hún hafði ástæðu til að vænta greiðari framkvæmda með því. Hins vegar var henni það ljóst, að þingvilji er jafngildur með þessum hætti sem öðrum. Styrkleik hans ber eigi að meta eftir því, með hverjum hætti hann kemur í ljós, heldur eftir því atkvæðamagni, sem styður málið og atfylgi þings og stjórnar.

Sá ótti hefir komið fram, að Alþingi ljeti málið úr höndum sjer með þessari till. En hann er þó með öllu ástæðulaus við það niðurlag, sem er á till. Því að eins heimilar þingið þessa meðferð, að það telur sig bært um að veita þá heimild. Hún er því eigi játning um hið gagnstæða. Og aðferðin, sem er heimiluð, er flutningur á málinu frá löggjafarvaldinu til úrskurðarvaldsins. Hvorttveggja er íslenskt, og hlýtur þinginu því að vera jafnheimilt að flytja málið aftur frá úrskurðarvaldinu til löggjafarvaldsins, þótt svo ólíklega færi, að til þyrfti að taka.

Alþingi treystir því, að stjórnin leggi alla alúð við þetta mál og geri sitt ítrasta til, að fram gangi. Veit jeg með vissu, að hún hefir þar að baki fult og óskift fylgi þingsins, og þm. standa þar allir sem einn maður. En þm. hafa að baki alla kjósendur landsins, er standa svo fast að þessari einróma alþjóðarkröfu, að þeir munu nú eigi skiljast við málið, fyr en það er leitt til farsællegra lykta.

Jeg vænti þess, að menn sanni mál mitt með samhljóða atkv. um till. og samþ. hana, í fullu trausti þess, að konungur gefi nú þegar út, á ábyrgð forsætisráðherra vors og með undirskrift hans, úrskurð um að gera íslenska fánann fullkominn farfána, í samræmi við till. og einróma viljayfirlýsingu þings og þjóðar.