28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Þórarinn Jónsson:

Eins og hæstv. forsætisráðherra tók fram er það það, sem gefur tillögu þessari gildi, að allir fallist á hana og taki fyrirmæli hennar til greina. Þar sem víða hagar svo til, að leitir verða að fara fram samtímis úr mörgum hjeruðum, þá er auðvitað óframkvæmanlegt að fresta leitunum, ef eitt hjeraðið skerst úr leik. Vel getur verið, að sumstaðar hagi svo til, að þetta verði ekki að sök, en alstaðar þar, sem afrjettarlönd liggja saman, verður að leita samkomulags. Það, sem vakað hefir fyrir flutningsmönnum þessarar tillögu er auðvitað það, að heyskapur byrjaði óvenjulega seint, og því ástæða til að halda honum áfram í lengstu lög. En hins vegar mun mega ganga út frá því, að þegar leitir byrja sje heyskap lokið hjá flestum. Frá þessari hlið sjeð er einmitt mikil ástæða til að fresta rjettunum að þessu sinni. Það mælir líka með frestuninni, að nú er sumarauki og því lengra til vetrar frá rjettunum heldur en vanalega, og færslan yrði hvort sem er næsta haust. Nú er það, eins og allir vita, alt undir veðráttunni komið, hvort nokkurt gagn verður að þessari viku til heyskapar. Vel gæti svo farið, að veðráttan leyfði alls ekki, að neitt væri við heyskap átt. En um veðrið er engu hægt að spá fyrirfram, og það verður að vera undir hepninni komið, hvernig það lánast. Þótt nokkuð sje óvíst um árangurinn, þá álít jeg rjett að samþykkja tillöguna, eins og hún er, í von um, að framkvæmdum verði hagað samkvæmt tilmælum hennar. Fari svo, að margir verði á móti tillögunni og vilji ekki taka tillit til hennar, þá nær það mál ekki lengra.