28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Hákon Kristófersson:

Jeg skil ekki óttann í mönnum við þessa þingsályktunartillögu. Jeg hefi litið svo á, að hjer væri að eins um bendingu að ræða til hjeraðanna, og að þess vegna væri líklegt, að þar, sem ekki væri hægt að koma breytingunni á, mundu hjeruðin ekki fallast á hana. Með margra ára reynslu hefir það sannast, að fjallskil grípa oft mjög óþægilega inn í störf manna, sjerstaklega þegar óþurkar eru fyrri part sumars og þurkar síðari partinn. Nú er það kunnugt, að einmitt í sumar byrjaði sláttur í seinna lagi. Þar af leiðandi mundi það víða geta komið sjer vel að gefa hjeruðunum bendingu í þá átt að fresta fjallskilum að þessu sinni.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) mintist á það, að söfnin yrðu komin úr afrjettunum áður en kjötkaupmenn byrjuðu að kaupa.

Það mætti að vísu geyma fjeð í heimahögum, eins og háttv. 2. þm. Rang. (E J.) mintist á. En það myndi hafa þann ókost í för með sjer, að fjeð legði af við það og yrði þar af leiðandi rýrara til frálags.

Það hefir verið tekið fram, að hjeraðsstjórnir gætu komið breytingu þessari á, hver í sínu hjeraði, án íhlutunar þingsins. Þetta er vitanlega alveg rjett, en jeg býst við, að svo framarlega sem þingið lætur sig þetta engu skiftu, þá muni ekkert verða af framkvæmdum í þessa átt í hinum ýmsu hjeruðum.

Jeg vil því sem best mæla með því, að tillagan verði samþykt, því að jeg álít hana vel til þess fallna, og eins býst jeg við að margir eða flestir, er hlut eiga að máli í mínu kjördæmi, muni líta á.