28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

168. mál, fjallgöngur og réttir

Sigurður Stefánsson:

Jeg lít svo á, að þessi till. væri því að eins frambærileg, að fyrir lægju eindregnar áskoranir eða ályktanir frá öllum sveitarstjórnum landsins, eða að minsta kosti þeim sveitarstjórnum, sem ætla mætti að sjerstaklega þyrftu að nota þessa tilfærslu. En nú er því ekki til að dreifa.

Eftir því, sem jeg hefi heyrt á ræðum einstakra þingmanna, virðast þeir vera í mjög mikilli óvissu um, hvernig þessari till. muni verða tekið, svo að nú virðist enginn tími vera til þess að koma málinu á þessa braut, í þeirri von, að það geti leiðst til heppilegra lykta. Á þessu verður ekki byrjað nema fyrir liggi eindreginn vilji kjósendanna.

Til þess að samræmi fengist í þessar ráðstafanir, svo að þær geti komið að tilætluðum notum, er nú enginn tími, jafnvel þótt stjórnarráðið sími þegar til allra sýslumanna landsins.

Nú eru þegar byrjaðir að ganga gangnaseðlar, eða byrja innan skamms, svo að jeg get ekki ímyndað mjer, að samræmi fáist í þessu efni. En af samræmisleysinu getur leitt stórtjón. Það er hægt að segja hjer í þingsalnum, að menn, hver í sínum landsfjórðungi, geti ráðfært sig um tímann, en það verður erfiðara í framkvæmdinni, þegar fjarlæg hjeruð eiga hlut að. Mitt kjördæmi á hjer sjerstaka aðstöðu, því að þar er um engar verulegar fjallgöngur að ræða, heldur að eins smalamensku heimalanda, sem að eins tekur hálfan dag.

Alt öðru máli gegnir um stór afrjettarlönd. Ef áhugi hefði verið fyrir þessu máli, þá hefðu menn átt að snúa sjer til þingsins þegar í sumar, en nú er mjer ekki kunnugt um, að óskir liggi fyrir nema frá einu kjördæmi, svo að áhuginn er alls ekki almennur. Mjer þykir líka vafasamt, að sýslumenn muni taka þessu með þökkum, eða vilji gefa út skipanir í þessa átt, með því að samfara er æðimikil ábyrgð fyrir þá.

Það er mjög áríðandi, að fjallskil á stórum svæðum á landinu fari fram á einum og sama tíma, t. d. um alt hálendið milli Suðurlands og Norðurlands. Ef út af því er brugðið, getur stórtjón hlotist af. Nú eru að eins eftir þrjár vikur til gangna, og engin líkindi til þess, að þessar fyrirskipanir hafi náð að »cirkulera« um alt landið innan þess tíma, svo að hjer af mundi miklu fremur leiða glundroði og óregla í fjallskilum, til stórtjóns og kostnaðar.

Það hefir verið sagt, að fjallskil fari fram á óheppilegum tímum. Ef svo er, þá ber það vott um óhagkvæmar fjallskilareglugerðir, og eiga hjeraðsstjórnirnar sök á því. Jeg tel óhæfilegt, að stjórnin fari að skifta sjer af því, sem henni kemur ekki við og bundið er við staðhætti í hverju bygðarlagi. Því að þótt einstakar raddir hafi heyrst í þessa átt, þá er það ekki nóg til þess, að þingið fari að grípa inn í verksvið hjeraðsstjórna. Jeg verð því að telja þessa till. varhugaverða og ekki eiga við, að stjórnarráðið fari að grípa inn í verksvið hjeraðsstjórnanna. Enda heyri jeg líka, að þetta eigi ekki að vera nein bein stjórnarskipun. Sumarið hefir yfirleitt verið mjög hagstætt að tíðarfari, eitthvert hið besta á Vesturlandi að þessu leyti, svo að þótt einhver bjargráðaráðstöfun felist í till., þá eru þó annmarkarnir fleiri en kostirnir.