20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2439)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Pjetur Þórðarson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra lagði ríka áherslu á, að hjer væri að eins um bráðabirgðafrestun að ræða, og í sambandi við það benti hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á, að nefndin mundi hafa skotið fram hjá markinu. Fyrir mína þekkingu á sölu landssjóðsjarða, og þá sjerstaklega kirkjujarða, veit jeg, og gæti til nefnt ótal dæmi þess, að sjerhver frestun hefir þá afleiðingu, að jarðirnar verða að bíða eftir umbótum, og menn þeir, er vilja fá þær keyptar, leggja svo að segja árar í bát og reyna ekki að bjarga sjer, er þeir sjá, að þeir geta ekki átt von á að búa að því, er þeir vinna að.

Þeir, sem frestuninni fylgja, segjast vilja bíða þar til þessir óvenjulegu tímar taki að jafna sig og verðmæti peninga komist í sæmilegt horf. Hv. l. þm. S-M. (Sv. Ó.) reyndi, meira af vilja en mætti, að sýna fram á að vegna verðfallsins væru jarðirnar seldar fyrir ¼ af sannvirði, og hjelt sjer auðsjáanlega við verðlag peninga. Nú er því svo farið, að minsta kosti að því er kirkjujarðir snertir, að eftirgjaldið er ekki goldið í peningum, nema þá eftir verðlagsskrá, miðað við landauraverðlag. Afgjaldið hækkar að krónutali, ef goldið er í peningum í stað landaura; það stígur í hlutfalli við verðfall peninganna, hvort heldur það er goldið í ám, gemlingum eða smjöri. Þegar jarðirnar eru seldar, get jeg því ekki betur sjeð en að verðið hljóti að laga sig eftir verðgildi peninganna, þar sem afgjöldin gera það. Þess vegna er rangt að gera ráð fyrir að fresta sölunni, þegar verðfallið hefir lítil eða engin áhrif á afgjöldin.

Annars finst mjer þeir, er talað hafa með frv., hafa haldið fram tveim andstæðum sínu máli til stuðnings. Annars vegar mæli það móti sölunni, að ef hætt væri við hana, megi þegar þörf krefur, skifta jörðunum milli jarðnæðislausra manna, er þurfa land til að lifa á. Hins vegar sje það og móti sölunni, að hægt sje að tryggja ábúendum ábúð fyrir þá alla æfi, og jafnvel niðjum þeirra. Þetta finst mjer hvað móti öðru. Ef tryggja á ábúendum og niðjum þeirra sömu kjör og ef þeir ættu jörðina sjálfir, sje jeg ekki, hvernig menn ætla að halda jörðinni tilbúinni til skifta, hve nær sem vera skal. (Sv. Ó.: Þegar ábúendur skifta!) Ekki ef um erfðafestu er að ræða.

Annars vildi jeg bæta því við, að jeg get verið þakklátur hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) fyrir það, sem hann var að hjala um þetta mál, því að jeg vænti þess, að það hjálpi nokkuð til að sálga fylgi deildarinnar við þá skoðun, er hann virtist vilja leggja liðsyrði.