28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg skal geta þess, í sambandi við ræðu háttv. þm. Vestm. (K. E.), að Þórhallur Daníelsson skýrði samgöngumálanefndinni frá því, að hann hefði farið fram á það við stjórnina, að hún sæi um samgöngur við Hornafjörð, og að hún hefði tekið þessari umleitan sinni vel, en samt hefði þetta ekki lánast fyrir henni, þegar til kom.

En þegar útsjeð var um, að stjórnin gæti nokkuð gert í þessu efni, dreif Þórhallur sig til, með miklum dugnaði, og útvegaði skip til þess að annast samgöngurnar á sinn kostnað. Þannig tókst honum að afstýra þeim vandræðum, sem yfir sýslunni vofðu vegna samgönguleysis. Það sannaðist líka í samgöngumálanefndinni, að vörur höfðu verið seldar með sama verði á Hornafirði og á Djúpavogi. Það votta þm. Austur-Skaftfellinga og þm. Sunnmýlinga. Og samgöngumálanefndin komst að þeirri niðurstöðu, að tapið, sem Þórhallur hafi beðið, með því að kosta samgöngurnar, hafi numið um 10,000 kr. Nefndin lagði til, að um ? tapsins skyldi endurgreitt úr landssjóði. En nú hefir meiri hluti fjárveitinganefndar lagt til, að Þórhalli skuli greiddar 5000 kr., en það nemur ekki nema helmingi tapsins. Og jeg get ekki trúað, að hv. deild vilji hafa þessar skaðabætur lægri, einkum þegar þess er gætt, að kaupmaður beið skaðann af því að birgja upp eina sýslu landsins að nauðsynjavörum, úr því að landsstjórninni gat ekki tekist það.