09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

36. mál, verðhækkunartollur

Magnús Guðmundsson:

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) stakk upp á að vísa málinu til nefndar, en því vil jeg svara þeirri uppástungu, að málinu verður að hraða svo mikið, ef það á að koma að gagni, að enginn tími er til þess. Um framlengingu verðhækkunartollslaganna í heild sinni er það að segja, að jeg hefi alls ekki búist við, að til þess kæmi, og ekkert frv. liggur fyrir í þá átt, hvorki frá háttv. stjórn nje neinum í þessari háttv. deild, enda stappaði nærri fullu loforði frá þingsins hálfu 1915, að lögin skyldu ekki standa lengur en nú til hausts, og það er hæpið, að þingið geti, sóma síns vegna, gengið á bak þeirra orða sinna. Jeg sje ekki heldur annað en lítið hafist upp úr verðhækkunartolli þótt lögin yrðu framlengd, því að verð það, sem nú er tollfrjálst, hlýtur að hækka mikið, og ekki annað sýnilegt en að framleiðsla yfirleitt minki stórkostlega, en hvorttveggja, hækkun lágmarksverðsins og rýrnun framleiðslunnar og útflutningur, lækkar tollinn stórum og gerir hann alveg óábyggilegan sem tekjustofn fyrir landssjóðinn. Jeg geng út frá því sem gefnu, að engum detti í hug að framlengja lög þessi án þess að hækka hið tollfrjálsa verð, vegna stórkostlega aukins framleiðslukostnaðar síðan 1915, er lögin voru sett.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók það fram, að það, sem jeg sagði um, að allur tollurinn mundi lenda hjá milliliðum, ef ullartollur yrði eigi afnuminn nú þegar, ætti einnig við t. d. um síld, en þetta er rangt. Síldveiðar eru eigi enn byrjaðar og ef menn vita, að lög þessi falla úr gildi 17. sept. í sumar, er auðsætt, að engum dettur í hug, við kaup og sölu á þessari vöru, að gera ráð fyrir verðhækkunartolli af henni. Og sje eitthvað selt af síld og fiski nú þegar, er ómögulegt að koma í veg fyrir, að tollur af því lendi hjá milliliðum. En þannig er ekki ástatt með ullina.