12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2548)

36. mál, verðhækkunartollur

Þórarinn Jónsson:

Mjer er óljúft að taka til máls, með því að jeg átti sæti í nefndinni, og skal síst lengja umræðurnar, en get þó ekki stilt mig um að segja nokkur orð.

Umræðurnar hafa aðallega hnigið að því, hjá hverjum gróðinn mundi lenda, ef ullin væri tekin út úr. En þótt þetta sje nokkurt atriði, þá er það þó ekki aðalatriði fyrir mjer, því að jeg álít þetta litlu skifta. Jeg hefi verið algerlega á móti lögunum frá því fyrsta, af því að jeg álít þau koma ranglega niður, ekki eingöngu í þessu atriði, heldur yfirleitt., Jeg vil og taka til dæmis það atriði, að tollurinn af öllum þeim vörum, sem keyptar eru og ekki eru sendar út úr landinu, lendir í höndum kaupmanna eða kaupfjelaga. Ef t. d. bláfátækur sjómaður klípur af afla sínum fyrir bráðnauðsynlegustu lífsnauðsynjar, þá tekur kaupmaðurinn hann með niðursettu verði fyrir útflutningsgjaldinu. Nú verkar kaupmaðurinn fiskinn og selur hann svo aftur sama manni fyrir það verð, sem hann getur fengið fyrir hann í útlöndum. Er nokkurt rjettlæti í þessu?

Hv. þm. Dala. (B. J.) bar í vetur upp frv. um að afnema lögin, og greiddi jeg því þá atkvæði; því er jeg og nú samþykkur brtt., en af því að jeg er í nefndinni og það má telja upplýst, að ef málinu er ekki hraðað, tapist skatturinn, þá hefir það gert það að verkum, að mjer er nær að leyfa lögunum að lifa aldur sinn, en ekki hefði jeg gert það, ef ekki stæði í nál., að öll nefndin væri samþykk því, að lögin falli á sínum tíma, sbr. orðin: „Var það þegar samhljóða álit hennar, að þessi lög gætu ekki undir neinum atvikum framlengst í sömu mynd sem þau eru nú í . .“, þá líklega neyðist jeg til þess að vera á móti brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), en ekki þó nema í þeirri fullu vissu, að þau lifi ekki lengur.

Ýms atriði hafa komið fram, sem þegar hefir verið svarað og jeg get slept, en eitt atriði í ræðu hv. fjármálaráðh. (B. K.) get jeg ekki leitt hjá mjer, sem sje þau orð hans, að eitthvað þyrfti að setja í staðinn. Hvers vegna lagði þá stjórnin ekki fyrir frv. um framlenging þessa skatts, fyrst að hún ætlast til þess, að hann standi? Nú hefir hún ekki gert það, og jeg tel vafasamt, að búast megi við því, að einstakir þm. geri það.

Það má segja, að allir skattar sjeu ranglátir. En tvímælalaust hlýtur að mega finna einhverja sanngjarnari leið, því að þessi er altaf ósanngjörn, af því að hún kemur ójafnt niður.