14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

36. mál, verðhækkunartollur

Matthías Ólafsson:

Jeg vildi ekki láta þetta mál fara svo hjer út úr deildinni, að jeg skýrði ekki áður afstöðu mína til þess. Jeg gerði það lítillega við fyrri umræður, en álít rjett að vekja athygli á, að það er alls ekki rjett, að búið sje að tvítolla ullina. Lögin gengu í gildi 16. september 1915, og þá var búið að selja alla ull og meiri hluti hennar fluttur út. Tollurinn hefir því lent á útflytjendunum og þó að eins að litlu leyti, en ekki framleiðendunum. Því er engin ástæða til að ljetta þessum tolli af, heldur hefði þessi ullartollur átt að bíða, uns lögin öll eru úr gildi. Það er líka æði óviðkunnanlegt að taka eina vörutegund undan, og það því fremur, sem þessi litli tollur munar einstaklingana svo að segja engu, en getur þó munað landssjóð nokkru, er hann kemur saman. Öll upphæðin samanlögð er þó á við laun handa einum hæst launaða embættismanni landsins. Jeg tel afaróheppilegt að taka þessa vöru fram yfir aðrar. Þess ber líka að gæta, að sennilega mun það verða ofan á að nema öll verðhækkunartollslögin úr gildi, og þá gat þetta vel beðið. Sjerstaklega hefi jeg þó haft á móti þessu frv. af því, að mín skoðun er, að verðhækkunartollslögin eigi að haldast öll, en að eins breyta þeim, hækka lágmarksverðið, þar sem framleiðsla er svo dýr, en láta þau svo haldast í gildi, þar til styrjöldin er á enda. Jeg tel sem sje heppilegra að leggja skatta á framleiðslu en neyslu. Jeg held, að framleiðendur sjeu færari að bera gjaldbyrðar en þeir, sem flesta líkami hafa að klæða og flesta maga að seðja.

Mjer er það því „princip“-mál, að lögin sjeu ekki afnumin, og sjerstaklega þykir mjer leitt, að þetta frv. sje samþ., þar sem um svo nauðalítið gjald er að ræða. Verði þetta frv. samþ. hjer í deildinni, sje jeg ekki annað en best sje að nema burt úr málinu máltækið: „Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi“. Því að nú sýnist mjer bústólpinn hafa gengið best fram í því að velta af sjer hverri byrði, hversu ljett sem verið hefir, sem á hann hefir átt að leggja, til sameiginlegra þarfa þjóðfjelagsins, en jafnframt reynt að smeygja henni á aðra Það er hart að þurfa að setja von sína til Ed., en það er eina vonin, að hún felli frv., því að hjer í hv. Nd. ræður í þessu máli auðsæ hlutdrægni og smásálarskapur.