12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2579)

42. mál, einkasala á mjólk

Einar Arnórsson:

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefir tekið sumt af því fram, er jeg ætlaði að nefna. Aðalmeinið er mjólkurþurðin, og litlar líkur til, að bætt verði úr henni fyrst um sinn. Bæjarstjórnin hefir felt tilboð um sölu á kúm og landi, og ekki munu kýrnar mjólka betur eða þeim fjölga, þótt bærinn taki að sjer einkasölu á mjólkinni. Úr aðalvandræðunum verður ekki bætt með því.

Það er rjett, sem hv. flm. (J. B.) vjek að, að sleifarlag er á mjólkursölunni. En fyrst og fremst er jeg ekki viss um, að það færi af, þó að salan kæmist í hendur bæjarfjelagsins. Jeg býst ekki við, að eftirlitið verði ólastanlegt eftir það, fyrst að það hefir ekki verið það hingað til. Bæjarstjórn hefir sett reglugerð um mjólkursölu, en hingað til hefir hún víst að mörgu leyti verið dauður bókstafur, þrátt fyrir heilbrigðisfulltrúa, heilbrigðisnefnd og bæjarstjórn, og býst jeg eigi við, að það mál mundi lagast, þótt bærinn tæki einkasölu á mjólk.

Eftir því, sem hv. flm. (J. B.) sagði, hefir verið gerð gangskör að því að rannsaka mjólkursölumálið. Sú rannsókn kvað jafnvel hafa gengið svo langt, að búið sje að eyða pappír og prentsvertu í skýrslu frá rannsóknarnefndinni. Einstökum mönnum hefir jafnvel verið hótað að svifta þá söluleyfi sakir óhreinlætis. Þetta er nú gott og blessað, og má framkvæma það, hvort sem bænum er heimiluð einkasala eða ekki. En sje svo, að ekki sjeu lög til að taka nægilega stranglega í taumana gagnvart fólki, er sýnir hirðuleysi í þessu efni, er sjálfsagt að setja lög, er veita bæjarstjórninni heimild í þá átt. Það er verk löggjafarvaldsins. Hv. flm.

(J. B.) kvað nauðsyn á, að mjólk færi ekki til annara en þeirra, er þurfa. Jeg veit, að einkasöluheimildin mundi eigi fullnægja þessari kröfu, sem jeg skal manna síðastur mótmæla. Eina ráðið væri þá líklega að úthluta mjólkurkortum eftir mannfjölda, og þá fyrst og og fremst barnafjölda. Þetta skilst mjer að mætti gera, hvort sem bærinn fengi einkasöluheimild eða ekki.

Jeg er fullkomlega samdóma hv. flm. (J. B.) um það atriði, að full þörf sje á að koma í veg fyrir, að þessari litlu mjólk, sem fæst, sje ráðstafað eins og gert er á mjólkursölustöðunum. Það er alkunna, að margir fara þar inn og neyta þar mjólkur, er þess þurfa ekki, í samanburði við börn. Svo eru það þessi blessuð kaffihús, sem margir geta verið án, er eyða mikilli mjólk, jafnvel litlu minna en mjólkursöluholurnar. Löggjafarvaldið ætti að veita bæjarstjórn heimild til að hjálpa þessu við, og er það nauðsynlegt.

En færi nú svo, að mönnum sýndist rjett að halda fram þessari stefnu um einkasöluheimild, væri rjett að athuga vel, hvort ekki væri tækt að útvega alþektum þrifnaðarheimilum undanþágu. Það er kunnugt, að hjer eru ýms heimili, er framleiða allmikla mjólk, sem jeg veit ekki til, að menn hafi neitt út á að setja. Jeg veit ekkert um hug mjólkurframleiðenda gagnvart þessu frv., en finst, að athuga þyrfti, hvort þessi heimild gæti haft þau áhrif, að mjólkurframleiðslan minkaði. Jeg álít, að við megum ekki við því hjer í Reykjavík.