14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2598)

44. mál, stofnun stýrimannaskóla á Ísafirði

Pjetur Jónsson:

Jeg vil styðja það, að málið gangi til mentamálanefndar, jafnvel þótt það sje skyldara sumu, sem heyrir undir sjávarútvegsnefnd. Yfirleitt munu skólamál fara þangað, og þangað var vísað húsmæðraskólafrv. í Ed.

Endinn skyldi í upphafi skoða. Þegar um fyrirtæki landssjóðs er að ræða, þá verða menn að hugsa út í afleiðingarnar fyrir landið í heild sinni. Jeg tek þetta fram af því, að hjer er að ræða um skólastofnun á Ísafirði, og er ein höfuðástæðan, að þar hafi verið beðið um hann. Jeg býst við, að ekki standi lengi á samskonar beiðni frá Akureyri, og þá líklega líka frá Austfjörðum. Á þessu verður nefndin að átta sig, hvort t. d. heppilegt sje eða nauðsynlegt að hafa sinn stýrimannaskólann í hverjum landsfjórðungi.

Jeg vakti athygli á því, hvort ekki væri hugsanlegt, að vjer gætum komist af með einn skóla fyrst um sinn, og þyrftum engan hjeraðameting um það, og hvort það yrði þá ekki Reykjavík, sem hefir mestar samgöngur allra staða á landinu.