22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2621)

46. mál, forðagæsla

Sigurður Sigurðsson:

Jeg verð að byrja á þeirri umsögn, að jeg hefði helst kosið, að ekki hefði verið hróflað við forðagæslulögunum á þessu þingi. Það hefir að vísu ekki leynt sjer, að ýmsir hafa ekki verið ánægðir með þau. Jeg skal líka kannast við, að forðagæslustarfið hefir ekki alstaðar verið leyst sem best af hendi. Það eru dæmi til, að til forðagæslunnar hafa verið valdir alls óhæfir menn. En þótt þessi galli hafi verið á framkvæmd laganna er það ekki næg sönnun fyrir, að sjálf lögin sjeu gallagripur. Þessar misfellur, sem fram hafa komið, stafa af mótþróa einstakra manna.

Jeg vil líka benda á, að lögin eru ung og lítt reynd. Þau eru frá 10. nóv. 1913. Skömmu eftir að þau gengu í gildi hófst ófriðurinn mikli, sem enn stendur. Meðal annara afleiðinga hans er sú, að verð á kjöti árin 1914 og 1915 og öðrum búsafurðum hækkaði að miklum mun. Hækkunin hefir valdið því, meðal annars, að menn hafa orðið djarfari að setja á, og þoldu ver en ella allar tálmanir á frelsi sínu. Því er nú einu sinni svona farið, að þegar mikið er í aðra hönd, leggja menn mikið á hættu. Hugsunarhátturinn verður þá þessi: Vogun vinnur og vogun tapar. Þetta hefir einmitt átt sjer stað um heyásetning undanfarin ár.

Það er því mín skoðun, að áhrif styrjaldarinnar, og stundum mishepnuð framkvæmd laganna, hafi valdið því, að þau hafa enn ekki náð tökum á almenningi. Það væri því að rasa um ráð fram að fara nú að breyta lögunum til muna. Auk þess tel jeg frv. á þgskj. 47 til engra bóta, og sömuleiðis brtt. minni hlutans á þgskj. 289 til spillis. Það er eitt atriði í brtt. minni hlutans, sem mjer virðist hann leggja einkum og sjer í lagi áherslu á, sem sje að fella úr gildi haustskoðun. Jeg lít svo á, að ef haustskoðuninni er kipt burt, þá sje kipt burt öllum krafti úr forðagæslulögunum. Haustskoðunin er sjálfsögð, ef nokkur skoðun á fram að fara, því að á henni byggist að miklu leyti seinni skoðunin. Fyrir þessu hafa verið færð ljós rök, og skal jeg ekki endurtaka þau.

Hv. flm. frv. á þgskj. 47 vilja færa kaup forðagæslumanna upp í 5 kr. á dag. Mjer kemur ekki til hugar að segja, að það sje ofmikið. En í þessu sambandi vil jeg benda á, að eitt af því, sem spilt hefir vinsældum forðagæslulaganna, er að forðagæslumönnunum var nokkru sinni ætluð borgun fyrir starf sitt. Jeg hefi einmitt oft orðið var við, þegar jeg hefi spurt menn, sem óánægðir hafa verið með lögin, um ástæður fyrir óánægju þeirra, að þeir hafa tilnefnt það eitt, að forðagæslumönnum er ætlað kaup. Það væri því síst til að auka lögunum vinsældir að fara nú að hækka kaupið.

Margir segja, að í raun og veru ættu engin forðagæslulög að eiga sjer stað. Með vaxandi þroska læri menn að setja á. Þá komist menn að raun um, að það sje ekki siðuðum mönnum samboðið að leggja eigur sínar í hættu. En hver er reynslan um þetta efni? Á hverju einasta ári verða einn eða fleiri heylausir í hverri sveit. En þegar hart er í ári, eins og t. d. 1910, eða vorin eru slæm, eins og 1914 og 1916, þá er alment heyleysi um allar sveitir. Þetta sýnir, að sannfæring manna um, að ekki sje sæmandi að setja á guð og gaddinn, er ekki enn í góðu lagi. Vorið 1915 var jeg á ferð um margar sveitir, á útmánuðunum. Jeg spurði bændur um heyjaástæðurnar. Svarið var eftirtektarvert. Nær allir sögðu, að af því, að veturinn hefði verið einstaklega góður, þá kæmust víst flestir af, en hefði komið slæmur vetur, þá hefði illa farið. Á útmánuðunum í vetur var jeg líka á ferð, og voru svörin alveg þau sömu, þegar jeg spurði um heyin. Því er það grunur minn, og hann er bygður á allmiklum líkum, að mönnum hafi síst farið fram í því að setja vel á vetur.

Það, að ásetning er síst betri nú síðari árin en áður, stafar með fram af háa verðinu á afurðunum, eins og jeg hefi tekið fram. Þegar nú ástandið færist í samt lag aftur, fara forðagæslulögin fyrst að sýna sig. Því væri það barnaskapur að fara nú að breyta þeim. Þau eru góð; eins og þau eru, og það á að ganga ríkt eftir, að þau sjeu haldin. Ef menn læra ekkert af því, þá efast jeg um, að þeir læri meira af hinu, ef dregið verður úr krafti þessara laga.

Af þessum ástæðum æski jeg þess, að forðagæslulögin fái að standa óbreytt.