14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

50. mál, stofnun landsbanka

Einar Arnórsson:

Að eins örlítil athugasemd, í sambandi við ræðu hv. 1. þm. N.-M. (J. J.). Ef jeg man rjett var um jólaleytið síðastliðinn vetur komið fult samkomulag milli landsstjórnar og bankastjórnar um reglugerð handa útibúinu á Austfjörðum. Um jólaleytið komu til stjórnarinnar tillögur frá Landsbankastjórninni um, hvar útibúið skyldi sett. Landsbankastjórnin hafði leitað umsagnar sýslumannanna í báðum sýslum. Og sem nærri má geta voru þeir hvor á móti öðrum. Sýslumaður Norðmýlinga og bæjarfógeti Seyðisfjarðar hjelt auðvitað fram Seyðisfirði, en embættisbróðir hans í Suður-Múlasýslu jafneindregið Eskifirði. Landsbankastjórnin lagði, ef jeg man rjett, með því, að útibúið væri sett á Seyðisfirði. Henni þóttu rök sýslumanns Norðmýlinga ríkari en rökin frá hinni hliðinni. Svo komu ýmsar raddir frá mikils metnum Sunnmýlingum, er hjeldu fram málstað Suður-Múlasýslu í þessu efni. Og af því að nú var svo ástatt, að þetta mál kom í mínar hendur, er jeg ætlaði ofan, og jeg vissi, að í stjórninni mundi taka sæti maður, er kunnugur var þessu máli, sem sje þáverandi bankastjóri og núverandi fjármálaráðherra (B. K.), þá vildi jeg ekki taka fram fyrir hendur þeirrar stjórnar. Jeg skal ekkert segja um, hvort stjórnin hefir síðan fyrir sitt leyti ráðið málinu til lykta, en þó virðist svo, sem hún hafi ekki gert það, og get jeg vel skilið, þótt stjórnin vildi fresta málinu til þings, eins og á stóð.