06.09.1917
Neðri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2799)

107. mál, merkjalög

Sigurður Stefánsson:

Aðeins fá orð. — Hæstv. atvinnumálaráðherra veit það vel, að það er siður hjer á þingi að setja frestinn aldrei lengri en þetta, og það er eðlilegt, að þetta sje gert, þegar þinginu þykir þörf á bráðri lagasmíði. Jeg skal játa, að nú eru meiri verkefni fyrir stjórnina en áður, enda eru nú fleiri en áður í stjórninni, og jeg sje ekki heldur, að hjer sjeu þau ljón á leiðinni, að stjórninni ætli ekki að vera vorkunnarlaust að ljúka af undirbúningi þessa máls fyrir næsta reglulegt Alþingi. Þessu máli víkur svo við, að það ætti ekki að vera ofvaxið gömlum, reyndum og greindum bónda að semja uppkast að öðrum eins lögum og þessum, ekki síst þegar hann getur notið eins góðrar aðstoðar og stjórnin á kost á, og get jeg í viðbót við það, sem jeg nefndi áðan, bent á lagadeild Háskólans. En þau orð mín, sem jeg sagði áðan, standa óhrakin, að stjórnin verður að hafa frumkvæðið til allra hinna mestu vandamála, er þingið hefir um að fjalla, eigi löggjafarstarfið að vera í nokkru lagi, enda er þetta grundvallarregla, sem fylgt er í öllum löndum þar, sem þingræðið er langt á veg komið.