14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (2811)

115. mál, tollalög fyrir Ísland

Jörundur Brynjólfsson:

Að eins örfá orð út af því, sem hv. framsögumaður (H. K.) sagði um skattanefndirnar, að þær gætu lagt á stórgróðamennina svo mikið sem þeim sýndist. Það er misskilningur. því að þær geta ekki lagt á þann gróða, er menn hafa af landbúnaði eða sjávarútvegi. Tvær aðaltekjulindirnar eru með öðrum orðum tekjuskattsfrjálsar, því að ekki verður því neitað, að mikinn gróða hafa margir af þessum atvinnuvegum, sem betur fer.

Jeg skal að lokum minna á eitt atriði enn. Hingað til hefir Alþingi bókstaflega ekkert gert fyrir þurrabúðarmenn og almenning í kaupstöðum. Það er fyrst á allra síðustu þingum, og þá einkum má ske nú, sem menn sýnast vera farnir að muna eftir því, að þeir sjeu til.