14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2820)

126. mál, sala þjóðjarðanna Helgustaða og hjáleigunnar Sigmundarhúsa

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi ógnarlega lítið um þetta mál að segja, vil að eins láta þess getið, að mjer finst óþarft að setja sjerstök lög um að selja þjóðjörðina Sigmundarhús. Að vísu er þetta hjáleiga, sem er metin í fornu jarðamati með Helgustöðum, en slíkar jarðir hafa oft verið seldar eftir þjóðjarðasölulögunum frá 1905, og þá skift um leið. Jeg held því, að ekki sje þörf á sjerstökum lögum um þessa jörð. öðru máli er að gegna með Helgustaði. Jeg veit reyndar ekki, á hverju hæstv. stjórn hefir bygt neitun sína, en það liggur þó í augum uppi, að það getur verið vafasamt, hvort ætti að selja þessa jörð, vegna námunnar, og því væri viðkunnanlegra að hafa sjerstök lög um það efni, en þeirra þarf ekki með vegna Sigmundarhúsa. Borið saman við jarðaverð alment víð sjó á Austurlandi, finst mjer verðið á Helgustöðum vera hæfilegt en oflágt á Sigmundarhúsum. Það má heita venjuleg sala eystra á hlunnindalausum jörðum við sjó að meta hundrað hvert á 200 kr., en hlunnindajarðir miklu hærra.

Sigmundarhús eru rösk 7 hundruð að fornu mati, og virðist mjer því nær hæfi að meta þá jörð 141500 kr. ef borið er saman við verðið á Helgustöðum.

Annað hef jeg ekki að athuga við frv. þetta en matið, og vildi jeg taka það fram, til leiðbeiningar nefndinni, sem væntanlega fjallar um málið.