16.08.1917
Neðri deild: 35. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

156. mál, samábyrgðin

Hákon Kristófersson:

Mjer þykir mál þetta þess vert, að jeg geri grein fyrir atkvæði mínu um það. Jeg sje, að frv. gengur í umbótaátt, og er það æskilegt, því að það er viðurkent, að kostir þeir, sem Samábyrgðin býður, sjeu svo erfiðir, að varla sje gerlegt að fá skip vátryggð hjá henni. En ýms atriði hafa komið fram við umræðurnar, einkum hjá hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem sýna það, að ástæða geti verið til að fresta málinu og vísa því til stjórnarinnar og láta hana undirbúa það að nýju. Ekki þó svo að skilja, að jeg búist við svo miklu frá henni í umbótaáttina, að við það mundu allir una; miklu frekar því gagnstæða, ef maður lítur til ýmsra annara gerða hennar. En ef þetta er gert, þá er ekki hægt að bera oss á brýn, að vjer höfum rasað fyrir ráð fram, og að minsta kosti má þó vænta þess, að stjórnin hafi rannsakað alt, sem að endurtryggingunni lýtur. En það atriði tel jeg svo þýðingarmikið, að jeg sje mjer ekki annað fært en að greiða atkvæði með hinni rökstuddu dagskrá, sem fram er komin.