25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (2899)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Það kom mjer ekki á óvart, þótt töluverðar umræður yrðu um þetta mál, einkum þó frá þeirra hálfu, sem verður að telja fulltrúa fyrir sjávarútveginn hjer á þingi, frekar en landbúnaðinn. En mjer datt síst í hug, að umr. mundu komast í þetta horf, sem nú raun á orðin, að menn töluðu mest um það, að með þessu væri verið að skapa misrjetti í garð sjávarútvegarins. Þetta frv. er komið frá fjárhagsnefnd, og, eins og mönnum er kunnugt, eiga þar sæti menn, sem þekkja til beggja atvinnuveganna og vilja þar ekki upp á milli gera. Og ættu menn því að geta orðið ásáttir um það, að hjer er ekki verið að gera neinum til miska, heldur að eins að leita jafnrjettis og jafnvægis. Jeg sje heldur enga ástæðu til fyrir menn að áfellast fjárhagsnefnd fyrir það, þótt hún láti sjer ant um að afla landinu tekna, því að það er fleira en eitt, sem hvetur til þess, bæði þessir fjárhagslega erfiðu tímar, og enn fremur hefir stjórnin ætlast til, að nefndin gerði það, að því er virðist og eftir því, sem hún hefir látið í ljós, því að hún hefir sjálf ekkert gert til þessa. Þótt við sjeum nú á þeirri skoðun, að það standi ekki jafnnærri nefndinni, eins og stjórninni að garfa í þessum málum, þá höfum við samt gert það, samkvæmt óskum fleiri manna hjer á þingi en hæstv. stjórnar, að leitast við að auka tekjurnar dálítið. Það voru sanngjörn orð háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) í þessu máli. En ekki verður annað sagt en að hann sje manna kunnugastur þessum hnútum hjer á þingi og hefir það ætíð fyrir augum, þegar útgjöldin hækka, að eitthvað verði gert, sem geti aflað landssjóði tekna í skarðið. Við þóttumst nú hafa ástæðu til að vænta þess af hæstv. stjórn, að hún yrði hlynt þessari stefnu fjárhagsnefndar, þar sem jafnauðvelt er að sjá og hjer, að þetta er ekki ranglæti í neins garð. En nú, þegar til kastanna kemur, hefir komið í ljós, að sjávarútvegurinn hefir orðið ofan á hjá hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), eða sjálfur fjármálaráðherrann kafnaði undir sjávarútvegsfulltrúanum. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), sem talaði ekki sem slíkur í dag, kvaðst að vísu vera hlyntur útflutningsgjöldum yfirleitt, og taldi þetta að því leyti rjett hjá nefndinni. En hún hefði að eins farið heldur skamt, því að rjettara hefði verið að taka landbúnaðinn líka með. Þetta hefði hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) getað sparað sjer, jafnvel þótt honum fyndist, við að renna augunum til síns eigin kjördæmis, að þar væri í einhverju á hallað, sem nú reyndar ekki er. Hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) ætti að geta sjeð, að hjer er ekki verið að skapa misrjetti, heldur leiðrjetta misrjetti. Með þessu er ekki farið fram á annað en hlutfallslega jafna hækkun á gjöldum sjávarútvegarins við þá, sem orðin og komið hefir niður á landbúnaðinum í lausafjárskatti. Hjer er verið að leiðrjetta misrjetti, sem hefir komið til af því, að meðalalin verðlagsskrár hefir hækkað afskaplega hin síðari ár, en aftur á móti útflutningsgjöld af sjávarafurðum hafa altaf verið eins, síðan lög um þau voru sett, enda hafa þau verið hverfandi lítil og útgerðarmenn jafnan játað það og gengist við því, að það munaði þá engu. Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) talaði um það í ræðu sinni, að miklu meira kæmi í landssjóð frá sjávarútveginum heldur en landbúnaðinum. Þar til er því að svara, að það er ekki það, sem miða á við, heldur við hitt, fyrir hvorn atvinnuveginn gjaldið sje tilfinnanlegra, af hvoru verðmætinu sje meira borgað. Það þarf ekki annað en líta í verðlagsskrá til þess að sjá, að 1916—17 er meðalalinin hækkuð um hjer um bil helming frá þeim tíma, er lög um útflutningsgjöld og eins um lausafjárskatt voru sett. Það er ekki heldur rjett hjá háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að ekki sje tekið tillit til þess, að sjávarútvegsmenn borgi líka lausafjárskatt, það er að segja af skipum sínum. Því að það er að sjálfsögðu gert, enda sjálfgefið. En ef við berum saman t. d. kúna og skipið, og athugum, hvor hefir meira upp úr sínu, bóndinn eða útgerðarmaðurinn, þá þolir það engan samjöfnuð, hvað skipið gefur meira af sjer en kýrin, en af því er einmitt ekki goldinn lausafjárskattur, sem þar á móti er goldinn af því, sem undan kúnni er alið. Hjer er því algerlega skotið fram hjá markinu hjá hv. þm. V.-Ísf (M. Ó.). Það er verið að tala um það af sjávarútveginum, sem enginn lausafjárskattur hvílir á, og verður því ekki borið saman við landbúnaðinn. Það er annars leiðinlegt, að þeir, sem eru andmælendur þessa frv., skuli ganga burt meðan á umr. stendur, eins og jeg sje að nú á sjer stað um hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) og háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Háttv. þm. Dala. (B. J.) var að tala um, að það væri ranglátt að leggja á bæði tekjuskatt og svo þetta útflutningsgjald. En þar sem nú sýnt hefir verið, að þetta er að eins leiðrjetting á því, sem er, og til þess að ná jafnvægi, og þar sem hins vegar tekjuskatturinn gerir hvorttveggja jafnt undir höfði, landbúnaði og sjávarútvegi, þá er þar með auðsætt, að hjer er ekki verið að fremja neitt ranglæti, heldur hið gagnstæða, eins og margtekið hefir verið fram. Af því að háttv. andmælendur frv. eru ekki komnir á vettvang enn, þá sje jeg ekki ástæðu til að segja meira að sinni, en áskil mjer rjettinn til að segja það, sem jeg á eftir, þegar háttv. þm. þóknast að láta sjá sig.