29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

172. mál, markalög

Einar Arnórsson:

Þetta frv. er á sinn hátt mjög einkennilegt og merkilegt. Hjer er verið að tala um að breyta alt að þúsund ára gömlum venjum, sem hafa tíðkast hjer á landi. Sumar af þessum breytingum virðast dálítið varhugaverðar.

Aðalstefna frv. er í fáum orðum sú, að einn maður á að vera hjer í Reykjavík, sem á að hafa það starf á hendi að „færa“ öll mörk, þó að jeg viti ekki enn þá, hvert hann á að færa þau. Jeg býst nú við, að mönnum muni þykja það allóhagkvæmt og umsvifamikið. ef einhver ætlar að fá sjer nýtt mark, þá eigi hann að snúa sjer til Reykjavíkur, til þessa markvarðar eða „markgreifa“, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) komst svo ágætlega að orði. Þessi útnefndi „markgreifi“ á svo að rannsaka í fyrsta lagi það, hvort þetta mark sje hæfilegt til notkunar, og svo í öðru lagi, hvort það brjóti ekki í bága við mörk, sem aðrir kunna að hafa, og til þess verður hann auðvitað að fara í gegnum þessa voðalegu markaskrá, sem ætlast er til að sje yfir öll mörk, sem til eru á landinu. Svo þegar þetta er búið, þá á þessi „markgreifi“ að skrifa öllum þeim mönnum úti um land, sem annars mundu röngu beittir, og þeir svo auðvitað að svara. Ef það nú dregst nokkuð lengi, getur það skift árum, sem hlutaðeigandi maður verður að bíða eftir ákveðnu svari, hvort sem hann fær markið eða ekki. En það ákveður þessi markgreifi þegar alt þetta er um garð gengið. Þetta er aðalstefna þessa frv. og aðalbreytingar frá núgildandi reglum. — Ef svo færi, að frv. yrði ekki urðað nú þegar, heldur færi til 2. umr., þá vildi jeg mega benda á ýms einstök atriði. Og ætla jeg þá fyrst að byrja á endanum. Mjer þykir leiðinlegt, að landbúnaðarnefnd, sem jeg virði mikils, skuli láta bera þetta fram í sínu nafni, svona úr garði gert. Það mætti segja, að nefndin ályktaði eftir reglunni „superflua non nocent“, að ekki skaðaði að taka með það, sem ofaukið er. Hún fer hjer að nema úr gildi lög, sem aldrei hafa verið til, hvorki hjer á landi nje annarsstaðar, því að Landsbrigðabálkur Jónsbókar er að eins 12 kapítular, en eigi 47 eða 48, eins og í frv. segir að þeir sjeu að minsta kosti. Nefndin hefir hjer auðsjáanlega treyst altof mikið á þann petros, það hellubjarg, sem hún segir hafa samið þetta frv. Slíkar villur sem þessi geta að vísu allaf slæðst inn í þegar samið er, en maður skyldi ætla, þar sem heil nefnd ber upp frv., að þá sýndi hún því þann sóma að fletta upp þeim lögum, sem á að afnema, auk þess, sem nafnið á lögunum er ekki rjett; jeg þykist vita að það eigi að vera Landsleigubálkur, ekki Landsbrigðabálkur. — Það, sem háttv. 1, þm. Eyf. (St. St.) skaut að mjer, er líkt og þegar maðurinn sagði, að það gæti valdið misskilningi, ef blandað væri saman „kubikrót“ og „kvaðratrót“. — Þá ræðst nefndin á Rjettarbót frá 1294, og nemur úr gildi 44. gr., sem hljóðar svo: „Um kálfa og lömb, kið og grísi þá sekist maður eigi þó að ómarkað sje meðan í sjálfs hans landi gengur“. — Jeg býst nú ekki við því, að nefndin ætlist til, að menn fari að marka kálfa. En kiðin, sem eru afkomendur geitanna, ætlast nefndin ekki til að sjeu með, og er þó spursmál, hvort það er rjett, því að töluvert er af geitfje hjer á landi, t. d. í Norður-Þingeyjars. og víðar. — Þá stendur í 13. gr., að brot gegn lögum þessum varði sektum. Eflir því, sem jeg kemst næst, þá mun meiningin vera sú, að þegar þetta frv. er orðið að lögum, þá eigi að sekta menn, ef þeir hafa ekki markað alt fje, sem þeir mega henda í sínu eigin landi samkv. 1, gr. — Enn fremur ætlar nefndin að afnema síðustu málsgrein 70. gr. sveitarstjórnarlaganna 10. nóv. 1905, en gætir ekki að því, að þessi gr. er að eins ein málsgrein, svo að þá getur ekki verið að tala um að nema úr gildi síðustu málsgrein. Þessi villa hjá nefndinni mun stafa af því, að hún gerir ekki greinarmun á málsgrein og málslið. í þessu frv. er margt, sem tekið er úr Jónsbók, og er það gott, en það, sem frá nefndinni er sjálfri eða höf. frv., er fátt nýtilegt. Eitt af þessu er það, þar sem talað er um, að kýr helgi sjer kálf, hryssa folald o. fl. — Jeg held, að nefndin hefði að skaðlausu getað slept þessu ákvæði alveg. Hún virðist ganga út frá því, sem óneitanlega er dálítið einkennilegt, að menn sjeu í efa um t. d., hver eigi þennan og þennan kálf. Slíkt gat átt sjer stað fyr á tímum, meðan kýr voru reknar á afrjett, en jeg held, að allir hljóti að vera á einu máli um það, að þau komi ekki fyrir nú á tímum, þessi ákvæði í Jónsbók; þau eru bygð á alt öðru landbúnaðarástandi heldur en nú á sjer stað. Og ef á að fara að taka þau upp í ný lög, þá spái jeg, að mörgum verði að brosa. — Þá er í 12. gr. ákvæði, sem mjer er ekki vel ljóst. Jeg skil ekki, hvers vegna á að prenta markaskrá sjaldnar ef sýslubúar eru undir 3500 heldur en ef þeir eru fleiri. Því að ef þetta er gert með tilliti til fjölda fjárins, þá getur alveg eins verið fleira fje í þeirri sýslu, sem hefir færri íbúa. — í 10. gr. stendur: „Brennimark sýslunnar skal vera einn bókstafur, en mest þrír bókstafir“. Þetta ákvæði veit jeg ekki, hvernig á að skilja, og verð því að gefa það frá mjer, en skilji hver, sem skilið getur. — Í 8. gr. frv. stendur þessi klausa: „Flytji markeigandi búferlum milli sýslufjelaga, má hann ekki flytja mark sitt með sjer, nema með samþykki markvarðar“. Það liggur næst að halda, að nefndin geri ráð fyrir, að markið sje eins og hver annar hlutur, sem menn geti tekið og stungið ofan í malpoka sinn þegar þeir flytja. En meiningin mun eiga að vera sú, að menn megi ekki flytja fje sitt með því marki, nema með samþykki markvarðar. — 17. gr. stendur; „Skifta skal marki sem öðrum arfi, ef fleiri standa til“. Þetta er tekið orðrjett upp úr Jónsbók og er gott, en svo kemur: „Taki einhver erfingjanna við jörðinni, skal hann halda markinu“. — Þarna gengur nefndin út frá því, að maður, sem á mark, þurfi endilega að eiga jörð líka, sem svo erfingjar hans eiga að taka við að honum látnum. En, eins og menn geta sagt sjer sjálfir, þarf það ekki endilega að fylgjast að. Jeg þekki marga, sem einungis eiga fje, og þar af leiðandi mark, en aftur enga jörð. (St. St.: Þetta eru hártoganir). Nei, þetta eru engar hártoganir; þetta er ekki annað en eins og hver skynsamur maður hlýtur að álykta. — En nefndin er að nokkru leyti afsökuð, þar sem hún mun ekki hafa athugað frv. neitt nákvæmlega, ef afsökun skal kalla. — Þá er í 1. gr. talað um búfje. Þar er jeg aftur í vafa um, hvað það á að merkja, hvort það þýðir sauðfje eingöngu, eða hvort það nær yfir hross og kýr líka. Mjer þykir líklegast, að það muni eiga að merkja sauðfje að eins, þar sem fyrst í greininni er talað um „sauðfjáreiganda“.

— Í greinargerð frv., þar sem nefndin skýrir hverja grein fyrir sig, segir, að 1. gr. sje nákvæmlega eins og ákvæði Jónsbókar. Það er ekki rjett, því að í Jónsbók stendur: „Menn skulu einkenna búfje sitt alt nema hross, og hafa einkent er 8 vikur eru af sumri alt það, er hann þá má henda“.

Eins og allir geta sjeð þá er talsverður munur á þessu og því, er stendur í frv., og er því rangt það, sem sagt er í athugasemdunum, að það sje nákvæmlega eins.

— Nú hefi jeg í fáum orðum minst lítils háttar á einstakar greinar í þessu merkilega frv., og lít jeg svo á, sem athugasemdir mínar sjeu beinlínis í þágu nefndarinnar, ef frv. skyldi fá að sjá sólina við 2. umr. En höfuðatriðið er auðvitað stefnan, sem þar er tekin, og hefi jeg þegar gert grein fyrir afstöðu minni til hennar.