26.07.1917
Efri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í C-deild Alþingistíðinda. (2933)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Frsm. meiri hl. (Magnús Torfason):

Það hefir verið farið meira út í þetta mál en jeg hafði búist við. Nú er jafnvel svo langt gengið, að komin er tillaga fram um það að skapa því þegar aldur. Jeg verð þess vegna að fara um það nokkrum almennum orðum.

Menn hafa minst á það, að meðmæli sýslunefndarinnar vanti, og sje það svo mikilsvert formspursmál, að fram hjá því verði ekki gengið. Jeg held, að jeg hafi getið þess þegar við 1. umr. málsins, að þegar mál þetta var borið undir sýslunefndina í Norður-Ísafjarðarsýslu, þá var einungis óskað eftir tillögum hennar um fjárskifti. En að öðru leyti var litið svo á, að ekki þyrfti að bera sjerstaklega undir hana, hvort skilnaðurinn skyldi komast á. Og þegar litið er á sveitarstjórnarlögin, verður sama uppi á teningnum. 1 72. gr. þessara laga segir svo: „Eigi skal neinu máli, er varðar einhverja sýslu sjerstaklega, til lykta ráðið fyr en álits sýslunefndar þar hefir verið leitað um það. Sýslunefnd má og að fyrra bragði senda stjórnarráðinu tillögur um hvað eina, er verða má sýslunni til gagns, eða til þess að afstýra hallæri“. Þetta, að stjórnarráðið er nefnt, sýnir, að hjer er að eins átt við þau mál, sem umboðsvaldið fjallar um. En það nær alls ekki til afskifta löggjafarvaldsins. Sama er að segja um 34. gr. Hún er að öllu leyti eins og 72. gr., nema að hreppsnefnd kemur þar stað sýslunefndar, og sýnir líka, að þar er átt við mál, sem stjórnarráðinu er ætlað að ráða til lykta. Þá er að lokum 2. gr. Hún hljóðar svo: „Sýslum má eigi fækka nje fjölga, nje heldur breyta takmörkum þeirra, nema með sjerstökum lögum“. Hjer er þetta beint gert að löggjafaratriði og ekki minst einu orði á íhlutun sýslunefnda um slík mál. Jeg hygg svo, að jeg þurfi ekki að svara hv. 1. landsk. þm. (H. H.) öðru en þessu, og sný mjer þá að hv. 4. landsk. þm. (G. G.). Jeg get ekki annað sagt en að jeg sje mjög hlessa á framkomu þess hv. þingmanns. Hafi hann ætlað að koma frv. fyrir kattarnef, þá er framkoma hans ærið undarleg. Það er ekki óskrítið, að maður norðan af Ströndum skuli leggja svo mikið kapp á þetta mál, þegar vitanlegt er, að hann er ókunnur öllum staðháttum, og hefir lítið kynt sjer málið. Hv. þingdeildarmenn hafa reyndar heyrt, að hann hafi átt að tala við dáinn þingmann, sem jeg hjelt annars að mundi fá að vera í friði á náfjölunum, og að þessi þm. (Sk. Th.) hafi átt að biðja hann að leggja á móti frv. Það er raunar ætíð hægt að vitna til dáinna manna, en úr því að á hann var minst, get jeg sagt frá því, að hann kveið því mjög, að málið kæmi til Nd

Var það að vonum, því að afstaða hans var fjarri því að vera öfundsverð í þessu máli.

Mig langar enn fremur til að minnast á nokkur smáatriði í ræðu hv. 4. landsk. þm. (G. G.), þó að naumast sje eyðandi miklum tíma í að svara þeim, ekki merkilegri en þau voru. Hann mintist meðal annars á það, að það hefði ekki neina þýðingu fyrir Ísafjörð að sameinast Eyrarhreppi, í því skyni, að fá þaðan mjólk til bæjarins. Þetta sýnir, að þessi hv. þingm. (G. G.) ber ekkert skyn á málið. Jeg benti einmitt á, að sameiningin væri nauðsynleg til þess að geta komið sameiginlegum heilbrigðisreglum á. En það er ekki unt, nema um sama lögsagnarumdæmi sje að ræða. Og jeg hygg, að hv. 4. landsk. þm. (G. G.) mundi ekki standa á móti öðru eins máli og þessu, ef um hans eigin sveitarfjelag væri að ræða. Einstakir menn verða sjaldan til þess að standa á móti almenningsálitinu í sinni eigin sveit, en utansveitarmönnum er það auðvitað hægur vandi.

Þessi sami hv. þingm. (G. G.) taldi það vansæmd, ef þetta mál næði fram að ganga. Mjer er óskiljanlegt, að það sje meiri vansæmd en aðrar breytingar á takmörkum sveitarfjelaga. Öll slík mál hafa hingað til gengið umræðulaust í gegnum þingið. Svo var t. d. er Njarðvíkurhreppur, sem er 134 hndr., var sameinaður Keflavík, en þegar sameina á Eyrarhrepp, sem er lítið eitt stærri, einum höfuðkaupstað landsins, þá eru margar hendur á lofti móti því. Jeg sje ekki samræmið í þessu, og fæ yfirleitt ekki skilið, að það sje vansæmd fyrir þingið að halda áfram sinni eigin stefnu, sem hingað til hefir verið sú, að láta sveitarfjelögin sjálf ráða sem mest sínum eigin málum.

Menn hafa verið að reyna að leggja sjerstaka áherslu á hagsmuni Norður-Ísafjarðarsýslu, sem í húfi væru, ef þetta mál næði að ganga fram. Sannleikurinn er sá, að ekki er um nein sammál að ræða, nema þau, sem Ísafjörður leggur einnig til. Seinasta sammálið voru sýsluvegirnir. Sjósamgöngur eru allar kostaðar af landssjóði, eins og líka er sjálfsagt.

Hv. 4. landsk. þm. (G.G ) var að vitna til þess, að 1. landsk. þm. (H. H.) væri manna kunnugastur þar vestra, og væri því sjerstaklega mikið leggjandi upp úr hans dómi um þetta mál. Jeg hygg, að þetta muni ekki vera alls kostar rjett Hann var að vísu manna kunnugastur fyrir 13 árum, en nú er alt umbreytt. Kaupstaðurinn hefir þroskast stórkostlega síðan hv. 1. landsk. þm. (H. H.) var þar bæjarfógeti. Meðal annars hefir risið þar upp öflugur bifbátafloti, sem ekki var til þá. Og ekki mun ofsagt, þó að fullyrt sje, að Ísafjörður muni eiga einna fegursta framtíð fyrir sjer af öllum kaupstöðum landsins, því að nú er útlit fyrir, að síldveiði verði ekki stunduð minna þar en við Eyjafjörð, og vita allir, hversu stórkostlega þýðingu það hlýtur að hafa fyrir bæinn.

Jeg get ekki að því gert, að mig furðar æði mikið á þessari umhyggju manna fyrir Eyrhreppingum, sem svo mjög hefir borið á í þessari háttv. deild. Það er talað um þá eins og þeir væru einhverjir aumingjar og ræflar, sem ekki vissu fótum sínum forráð. Þetta er algerður óþarfi. Eyrhreppingar eru margir mjög duglegir menn, sem hafa einmitt ágætt vit á því, er að fjármálum lýtur. Þetta minnir mig annars á það, að þegar þetta mál var fyrst á döfinni fyrir vestan, þá voru það einstöku Ísfirðingar, sem reyndu að róa Eyrhreppinga undan og telja þeim trú um með kjassi og klappi, að þetta væri sjerstakur skaði fyrir þá. Þetta er ærið skrítið atferli, svo að ekki sje kveðið harðara að orði, sjerstaklega þegar þess er gætt, að allir Ísfirðingar verða að kannast við, að þetta er sjerstakt þrifnaðarmál fyrir bæinn.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) benti á það, að til þingsins væri komin áskorun frá 80 mönnum í Eyrarhreppi á móti sameiningunni. Þetta er alls ekki nein ný frjett; áskorun þessi var búin út 28. febr. í vetur, áður en nokkuð var farið að ræða málið opinberlega. Einn bóndi, — eini bóndinn í hreppnum, sem ekki hafði lífstíðarábúð á jörð sinni, heldur leigði frá ári til árs — reið um sveitina til þess að smala þessum undirskriftum, áður en menn voru farnir að átta sig á málinu. Jeg sje, að af þessum 80 mönnum eru 34 atkv. úr Arnardal, og eru ýmsir þeirra ekki kjósendur. Jeg get getið þess, að síðar fór þar fram leynileg atkvæðagreiðsla, og þá var að eins eitt atkvæði á móti sameiningunni. Það er þess vegna æði lítið mark takandi á þessari áskorun, enda mátti hún ekki sjást fyrir vestan, svo illa var hún til komin og svo einhuga var fylgi manna þá orðið með sameiningunni. Og jeg verð að halda því fram, að það sje nokkuð hart, ef Ísfirðingar og Eyrhreppingar fá ekki að ráða þessu áhugamáli sínu sjálfir. Og víst er um það, að ekki getur Eyrarhreppur beðið neitt tjón af þessu. Ísafjörður er best stæður allra kaupstaða landsins. Hann á eignir, sem nema um 150,000 krónum, þar af yfir 100,000 kr. í skærum skildingum, en skuldirnar eru einar 30,000 krónur. Allar framkvæmdir eru þar sjerstaklega ódýrar, sökum þess, hve bærinn er þjettbýll og vel settur. Það er þess vegna engin hætta á, að álögur verði þar þungar, nema ráðist verði í einhver stórkostleg framkvæmdafyrirtæki, en slíkt mundi ekki verða nema vissa væri fyrir góðum arði af þeim, og þá mundi Eyrarhreppur engu síður njóta hans en Ísafjörður sjálfur.

Jeg vil svo enda mál mitt með því að benda á, að Ísafjörður á siðferðilega heimtingu á sameiningunni. Jarðir í Eyrarhreppi eru flestar harðbalajarðir, en Ísafjörður gerir þær að góðjörðum. Hann veitir sveitinni allan vöxt og viðgang. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að hann fái að njóta sveitarinnar, og ótækt er, að hún geti verið eins og þverslá fyrir lífsnauðsynjum bæjarins. Þarf ekki að minna á annað í þessu sambandi en rafveituna, sem Hnífsdælir og Ísfirðingar ætla að koma á hjá sjer, en ekkert getur orðið úr fyr en sameiningin er komin á.

Jeg verð að kannast við það, að jeg skil ógerla, hvaða gagn á að hljótast af dagskránni, sem hjer er fram komin. Jeg skil ekki, hvað því veldur, að ekki má fara með þetta mál eins og önnur hjer í þinginu, og hvers vegna á að meina háttv. Nd. og þeim þingmönnum, sem þar sitja, að fjalla um málið. Mjer finst ástæðan því minni til þess, þegar jeg hefi beinlínis tekið það fram, að jeg óska ekki eftir, að málinu verði ráðið til lykta fyr en fulltrúi fyrir Norður-Ísafjarðarsýslu er kominn á þing.

Ýmislegt var það fleira í ræðu háttv. 4. landsk. þm. (G. G.|, sem mátt hefði svara, en jeg ætla að sleppa að þessu sinni.