01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í C-deild Alþingistíðinda. (2971)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg þarf ekki margt að segja viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði um nefndina og niðurstöður þær, sem hún hefir komist að. En það eru 2 atriði í ræðu hans, sem gefa mjer tilefni til skýringa. Það var á honum að skilja, að nefndin hefði ekki leitað upplýsinga á rjettum stöðum og þar af leiðandi ekki fengið ábyggilegar upplýsingar. En jeg get lýst yfir því, að nefndin leitaði upplýsinga bæði hjá landsstjórninni og hjá biskupi, og veit jeg ekki, hvar á að leita upplýsinga um þessi efni, ef ekki hjá þeim mönnum, sem kirknasjóðinn hafa í höndum. Bæði forsætisráðherra og biskup ljetu það í ljós, að óþarft væri að setja ný lög um þetta efni. En nefndin gerði þó meira en þetta. Hún rannsakaði alla reikninga sjóðsins, frá því er hann tók til starfa og fram að þessum tíma, og varð þess vör, að í þessi 25 ár, sem sjóðurinn er búinn að starfa, hefir hann engum eyri tapað. Ef lögin hefðu verið að einhverju leyti ófullnægjandi og reynslan hefði sýnt, að á frekari tryggingu þyrfti að halda, þá var ástæða til að koma með þetta frv. En svo er ekki. Annars skal jeg ekki vera að karpa um þetta; það skiftir ekki svo miklu máti. En jeg stend við það, að nefndin hafi leitað sjer góðra upplýsinga, og verð að líta svo á, að kirknafjeð sje nægilega trygt, og því engin ástæða til að samþ. þetta frv. Það verður að álítast, að starfsemi þessa sjóðs sje nú fullreynd, og þótt því sje haldið fram, að tryggingin fyrir fje hans sje ekki sem áreiðanlegust, þá er það að eins slagorð, sem á ekki við neitt að styðjast. Reynslan sýnir hið gagnstæða, að tryggilega sje um það búið. Þá er fullyrðing hv. þm. (G. Sv.) um ábyrgðarleysi stjórnarráðsins (stiftsyfirvalda) á kirknasjóðnum mjög hæpin. 4. gr. laganna frá 1890 er ákveðin, og ábyrgðin hlýtur að ná lengra en til reikninga, að rjettir sjeu.