17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í C-deild Alþingistíðinda. (2989)

124. mál, löggæsla

Jóhannes Jóhannesson:

Mjer finst andmæli manna hjer gegn frv. þessu aðallega stafa af því, að hv. þm. virðist, að hjer sje verið að kasta byrði, sem áður hafi hvílt á bæjar- eða sveitarfjelögum, yfir á landssjóð. En jeg tel það alls ekki tilgang frv. Hv. flm. (M.T.) hefir tekið fram, að tilgangurinn væri aðallega sá, að styðja að því, að tollögunum væri hlýtt. Sama er að segja um aðflutningsbannslögin, sem einnig verður að reyna að halda í heiðri, á meðan þau eru í gildi.

Jeg get ekki sjeð, að hjer komi neitt til mála að leggja bæjar- eða sveitarfjelögum nokkurt fje, heldur sje um það að ræða að veita lögreglustjórum lið til að gæta tolllaganna, enda ber þess að gæta, að tollar eða tollsektir renna ekki í bæjar- eða sveitarsjóði, heldur í landssjóð, og er það hans að sjá um, að þeim lögum sje hlýtt. Bæjar- og sveitarfjelögum er skylt að kosta þá löggæslu eina, sem nægir til að tryggja borgurunum, að þeir geti lifað og ferðast óhultir um sig, sína og sitt. Að ætlast til, að þessi fjelög leggi fram fje til sjerstakrar gæslu tolllaga og bannlaga, nær engri átt.

Jeg verð hins vegar að játa, að það er mikið til í því, sem sagt hefir verið, að frv. sje ekki eins vel úr garði gert og það ætti að vera, en það verður sannarlega að vera verkefni hv. nefndar að bæta úr því. Jeg vildi þess vegna leyfa mjer að gera það að tillögu minni, að þessari umræðu yrði frestað, og að nefndin tæki það aftur til gagngerðari íhugunar og komi fram með breytingar við það, er geri það ákveðnara og aðgengilegra.