10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í C-deild Alþingistíðinda. (3070)

189. mál, frestun á skólahaldi

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg býst við, að ef til vill hefði verið heppilegra fyrir mig að taka ekki til máls í þessu máli, ekki síst eftir að hafa heyrt ummæli hv. þm. Ak. (M. K.) um, að flutningsmenn þessa frv. sjeu fullur helmingur þingsins. Nægir það eitt til þess að ofbjóða mjer og til þess að missa trúna á að geta haft áhrif á nokkurn mann. Því að niðurstaðan fyrir mjer hefir orðið sú, að jeg hefi ekki getað fallist á frv. Mjer finst þetta vera svo mikið örþrifaráð, að menn verði að hugsa sig vel um, áður en gripið er til þessa.

Ýmislegt, sem sagt hefir verið frv. þessu til stuðnings, hefir mjer ekki fundist bygt á jafngóðum rökum sem skyldi. Fyrst og fremst hafa menn borið kolavandræðin fyrir sig. Það er að vísu rjett, að þær um 2000 smálestir, sem fyrirliggjandi eru af óeyddum kolum, hrökkva skamt, ef byggja ætti á þeim forða einum. En við vitum, að dálítið hefir bæst við á þessum degi, og ekki vonlaust um, að enn betur rætist úr síðar. Auðvitað er valt að treysta því, því að alt er vonarpeningur nú. En þegar svo stendur á, að menn hafa einhverjar vonir og þær eru á einhverjum rökum bygðar, finst mjer rjettara að heimila stjórninni með þingsál.till. að framkvæma það, sem frv. þetta skipar fyrir að gert skildi, ef svo illa færi, að flestar vonir eða allar brygðust.

Enn fremur hafa menn talið það ísjárvert að stefna lýðnum utan af landi til kaupstaðanna, og þá einkum til Reykjavíkur. Það er spónnýtt hljóð hjer á Alþingi, að menn skuli telja ísjárvert, að menn ofan úr sveitum, er mentunar vilja leita og hafa efni á því, fari þangað, sem bestar eru mentastofnanirnar og flestar. Þeir einir myndu koma, sem ekki ættu að vera bæjarbúum til byrði og geta kostað. veru sína hjer. Jeg hygg, að flestum úti um land sje kunnugt um, hve dýrt muni vera að lifa hjer á komandi vetri, og að þeir, sem ekki treysta sjer til að bera þann kostnað, hafi vit á því að láta börn sín sitja heima, heldur en senda þau frá sjer og eiga það á hættu, að þau líði kulda og sult. háttv. þm. Ak. (M. K.) kvað vetrardvöl í Reykjavík mundu kosta alt að 1500 kr. fyrir námsmann hvern. Hygg jeg þá upphæð vera í hæsta lagi og trúi vart, að kostnaðurinn verði svo mikill. En svo ber þess að gæta, að þessi upphæð er ekki bein gjöld, sem menn ella væru lausir við. Börn vor uppi í sveit lifa ekki af vatni og vindi. Við þurfum jafnt að verma börn okkar og fæða í sveitunum sem í Reykjavík, og er það einnig dýrt. Og ekki verður auðveldara að afla sjer kola, steinolíu eða annars eldsneytis úti um land, að sveitahjeruðunum undanteknum, heldur en í Reykjavík, þar sem aðflutningar frá útlöndum eru langgreiðastir.

Jeg játa, að verði skólunum lokað, er ástandið einna ískyggilegast fyrir Reykjavík. En það er skylda okkar þingmanna, hvaðan af landinu sem við erum, að muna eftir því, að Reykjavík er höfuðstaður landsins og langfjölmennasti staðurinn, og menn mega ekki virða neitt vettugi, er höfuðstað landsins gæti til sóma orðið. Jeg hefi að vísu ekki dvalið nema einn vetur í Reykjavík. En jeg get þó gert mjer í hugarlund ástandið, ef börn á skólaskyldualdri verða neydd til þess að flækjast á götunni allan veturinn. Ekki trúi jeg því, að þeim verði þar hlýrra eða líði betur en í barnaskólanum, nje heldur, að siðferði þeirra yrði eins gott eða betra. Og eftir þeirri skýrslu, sem þingmenn hafa fengið frá skólanefnd barnaskólans, sýnist enginn voði á ferðum, þótt skólanum sje leyft að starfa í vetur. Skólanefndin hefir skýrt frá því, að skólinn muni þurfa um 50 smálestir af kolum. Hann á fyrningar síðan í fyrra, um 20 smálestir, og vantar þá einar 30 smálestir á þann forða, er hann þarf að nota. En svo á bærinn um 60 smálestir af kolum, sem honum hafa áskotnast fyrir sama sem ekkert, og er enginn vafi á því, að skólanum yrði lagt það til af þeim kolum, er hann þarf með, enda ber bæinn skylda til að sjá fyrir skólanum. Ef nokkuð er örþrifaráð, þá er það að loka barnaskóla Reykjavíkur. Nokkuð líkt má segja um aðra skóla. Og þessi frestur, sem verða á á því, að skólarnir taki til starfa, verður að álítast sama sem að þeim sje lokað til fulls. Jeg hygg rjettara að láta skólana byrja á venjulegum tíma, ef þá væri ekki vissa komin fyrir því, að ógerningur væri að láta þá starfa, en svo hefði stjórnin heimild til að láta loka skólunum seinni hluta vetrar, ef hún sæi, að eigi væri fært að halda þeim lengur opnum.

Þessi umhyggja, sem þingið ber fyrir mönnum úti um land alt, að þeir ekki rasi fyrir ráð fram og sendi börn sín til Reykjavíkur, virðist mjer ganga oflangt. En það gengur í sömu stefnu sem svo margt annað, að löggjafarvaldið sletti sjer fram í prívathagi manna. Undanfarandi þing hafa verið að taka ráðin af mönnum í mörgum efnum og virðast hafa álitið alla ómynduga og fyrirhyggjulausa, nema þing og stjórn.

Menn hafa borið það fyrir sig, að svo freklega verði að taka í taumana, að banna alt skólahald, því að yrði einstöku skólum veitt undanþága, þá myndu margir koma á eftir. Hvað annað? Það má ganga að því sem vísu, því að það er ekki enn kominn tími til þess að loka öllum skólum. Og það er sannarlega hart gagnvart einstökum skólum, t. d. bændaskólunum, sem hafa birgt sig að innlendu eldsneyti og gert ýmsar aðrar ráðstafanir til að mæta komandi vetri, sem nú yrðu óþarfar, að neita þeim um að hagnýta sjer þau föng, er þeir hafa aflað sjer með svo miklum erfiðleikum. Það er örþrifaráð. Sama máli er að gegna um Flensborgarskólann. Hann hefir gefið góðar og gildar ástæður fyrir því, að honum sje leyft að halda áfram.

Menn hafa talað um sparnað og hent gaman að því, að skólastjórnir og kennarar hugsi sjer að spara svo mjög í vetur. Það hefir verið talin bending í þá átt, að alls sparnaðar hafi ekki verið gætt að undanförnu. En án þess, að um óhóf geti verið að ræða, þá er mikill munur á því, hvort menn eiga kost á allsnægtum við lágu verði, og því að vanta allar helstu nauðsynjar, og það litla, sem hægt er að fá, kostar ærið fje. Óhætt mun að trúa því, að allir hugsa nú meir fyrir eldsneyti en þeir hafa gert nokkru sinni áður. Og það er ásetningur allra að spara eldsneyti sem mest, enda neyðast menn til þess vegna þess gífurlega verðs, sem á því er. Trúi jeg því og treysti, að sparnaður þessi verði framkvæmdur og menn láti ekki sitja við orðin tóm.

Mjer finst það heillaráð, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði að Ísfirðingar hefðu ætlað sjer að taka, Jeg tók svo eftir, að þeir ætluðu að byrja skólahald á venjulegum tíma og halda svo áfram, þar til reynslan sýndi, að það væri ekki lengur hægt. Hygg jeg það rjettustu aðferðina.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) mælti mjög með frv. og tók ýms dæmi um það,

að börnum liði illa í hrörlegum húsakynnum. Nefndi hann sjerstaklega til eitt nágrannaheimili sitt. En ef húsakynnin eru ill, hrörleg, þröng og loftlítil og aðbúnaðurinn slæmur, er þá ekki nauðsynlegt að kippa börnunum út úr þeim, þótt ekki sje nema lítinn hluta dags, og láta þau nema eitthvað sjer til gagns í heitum og björtum skólastofum? Jeg hygg það fremur kærleiksverk og nauðsyn, er brýtur lög, eða öllu heldur löglega nauðsyn að halda skólunum áfram.

Jeg hygg, að þetta sje nóg til að sýna, að jeg get ekki gefið frv. atkvæði mitt. Hins vegar er jeg ekki á móti því, að frv. gangi til 3. umr., svo að það verði betur athugað og ef til vill lagfært. Það gæti og komið fyrir, að hugir manna breyttust, ef eitthvað, sem nú er að eins von, væri þá orðið að vissu áður en málinu lyki. Vil jeg því ekki vera því til fyrirstöðu, að lífið í frv. sje treint í nokkra daga.