03.09.1917
Neðri deild: 50. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Hákon Kristófersson:

brtt., að hreppstjórarnir fái 4 kr. á dag, finst mjer sanngjörn, og sje ekki ástæðu til að fara hærra. En það, sem jeg aðallega meinti með því að standa upp, var það, að jeg vildi leyfa mjer að spyrja háttv. frsm. (M. G.), hvernig hann lítur á 6. gr. frv. Þar er ákveðið, að úttektarmenn skuli fá 5 kr. á dag, en seinna í greininni er sagt, að sama gjald greiðist fyrir lausafjárvirðingar. Nú vildi jeg spyrja, hvernig háttv. framsm. nefndarinnar lítur á það atriði, er snertir lausafjárvirðingarnar, sem nær æfinlega eru látnar fara fram um leið og úttekt, hvort greiða á samkvæmt þessum lögum sjerstakt gjald fyrir þær. Sje svo, finst mjer allra síst ástæða til að borga meira en 4 kr. hverja úttekt. Jeg verð að líta svo á, að það sje ekki altaf sjálfsagt að samþykkja allar breytingar, sem háttv. Ed. gerir á frumvörpum, sem hjeðan koma, nema því að eins, að það sje gert til þess að komast hjá að flækja málum milli deilda. Ef Nd. hefir gengið vel frá málum, finst mjer hún ekki þurfa að ganga inn á allar þær breytingar, sem gerðar eru á þeim í háttv. Ed., og jeg verð að líta svo á, að sumar þær breytingar, sem þar hafa verið gerðar á þessu frv., hafi ekki verið til bóta, heldur þvert á móti.