13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í C-deild Alþingistíðinda. (3230)

120. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Sigurður Sigurðsson:

Jeg vil að eins segja nokkur orð, áður en málinu er ráðið til lykta.

Það er rjett hjá hv. frsm. (J. J.), að þetta frv. er svipað samskonar frv., sem legið hafa fyrir nokkrum undanförnum þingum og tíðast hafa verið samþ. í Nd., en ýmist dagað uppi í Ed. eða verið vísað til stjórnarinnar.

Á þinginu 1911 var frv. vísað til stjórnarinnar og hún beðin að leita álits allra búnaðarfjelaga landsins. Þessu tók stjórnin þannig, að hún skrifaði Búnaðarfjelagi Íslands brjef, þar sem hún taldi gagnslaust að leita álits búnaðarfjelaganna, en beiddist álits fjelagsstjórnarinnar. Búnaðarfjelagsstjórnin svaraði þessu brjefi í erindi, þar sem hún taldi ýmsa annmarka, sem á ábúðarlögunum eru, og gaf bendingar um breytingar, sem hún taldi æskilegar. Þessar bendingar hafa verið teknar til greina af flm. frv., sem er jeg.

Út af hinni rökstuddu dagskrá skal jeg geta þess, að jeg ljet það eftir nefndinni, að vísa mætti málinu til stjórnarinnar með þeim hætti, að leitað væri álits Búnaðarfjelags Íslands um það og stjórna búnaðarsambandanna. En hins vegar hefi jeg þó ekki mikla trú á, að mikill ávinningur verði að því. Þessi fjelög munu að líkindum leita upplýsinga mest hjá hinum stærri mönnum, sem kallaðir eru, efnabændum o.s.frv. En jeg lít svo á, að meira mundi á því að græða að leita til þeirra, sem vita best, hvar skórinn kreppir að, leiguliðanna. Og þótt svo sje að orði kveðið, að leitað skuli aðstoðar viturra manna, þá mun svo fara, að leitað mun til meiri háttar manna. þeirra sem hafa opinber störf með höndum eða mannaforráð, hvort sem þeir eru vitrir eða ekki vitrir.

Í rauninni held jeg, að ákvæðið sje að eins til málamynda.

En jeg geri þetta ekki að kappsmáli. Við sjáum hvað setur, hvort nokkur árangur fæst með þessari aðferð eða ekki. Það er undarlegt, hvað menn hafa annars sýnt lítinn áhuga á þessu máli yfir höfuð, þótt menn hins vegar viðurkenni, að lögin sjeu úrelt og þurfi bráðra umbóta. Þeir, sem hæst láta og í blöðin skrifa, eru ekki alt

af þeir, sem best hafa sett sig inn í málin, eða best skil kunna á þeim. Um þetta mál hefir verið tiltölulega hljótt í blöðunum, og síst hafa leiguliðar lagt þar orð í belg.

Jeg læt þá arka að auðnu um þetta mál, en vildi þó hafa komið fram með brtt. á þgskj. 921, með því að þar með er ráðin bót á þeim annmarka, sem nefndin í raun og veru taldi vera mestan á frv. því að yfirleitt var nefndin málinu hlynt, þótt hún hafi verið sein til að skila því frá sjer, og ekki hafi skort, að hún hafi verið mint á það.