18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í C-deild Alþingistíðinda. (3275)

160. mál, lántaka til að kaupa og hagnýta fossa

Flm. (Bjarni Jónsson):

Í gærkvöldi kom það til umræðu í öðru máli, hvernig efnahagur landsins væri, og kom það þá fram, að hann myndi góður, eftir því sem skýr maður, hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sýndi fram á. Að vísu var það vefengt af hv. 1. þm. Árn. (S. S.), en jeg held, að jeg verði að raða þeim 2 þingmönnum öðruvísi en kjósendur þeirra hafa gert, að minsta kosti í því máli. En þótt fjárhagurinn sje góður, er þó gott, að hann batni, og þótt þingdómurinn hafi ekki rjett fyrir sjer, er rjett að athuga hans fögru hljóð, að svo miklu leyti, að reynt sje að bæta hag landsins.

Jeg vil reyna að skýra öll ummæli þingmanna á betri veg, er þeir tala um að bæta hag landsins, en mjer er þó ljóst, að það er ekki altaf til batnaðar að spara. Til að bæta hag landsins er raunar ein aðferðin sú að spara, en hún er ekki einhlít. Hagurinn batnar t. d. ekki við það, að nýjustu kraftarnir og bestu mennirnir sjeu sveltir, til þess að einhverjar tölur í landsreikningunum geti staðið heima. Þær tölur, sem dýpra standa, sýna annað í hvert sinn, er góðum kröftum er hamlað að njóta sín.

Önnur aðferð til þess að bæta hag landsins er sú að græða, án þess að taka fje úr vasa neins einstaklings í landinu sjálfu. Þá verður spurningin: Á hverju á landið að græða? Það hefir verið hægt á síðari árum að heyra talað um auðsuppsprettur þessa lands. Jeg man það, að í uppvextinum og lengi fram eftir heyrði jeg stöðugt talað um þetta fámenna, fátæka og hrjóstruga land. Menn þorðu þá ekki einu sinni að líta upp til þess að gá að, hvort sæi til sólar. Á síðari árum hefir þetta breyst; menn hafa sjeð margar auðsuppsprettur á þessu landi og reynt að gera þær glæsilegar í augum annara þjóða, en þar þarf ekki lengi að leita hljóðs, því að erlendar þjóðir eru glöggar á auðsuppsprettur, og því fer fjarri, að þær álíti Ísland þann útlegðarhólma, sem vart sje lifandi á. Auðsuppsprettur Íslands eru margar, en það er varla hægt að ætlast til, að landið sjálft græði á þeim öllum, t. d. búnaði, fiski og heimilisiðnaði og smáiðnaði, því að það geta einstakir menn stundað og það er ekki rjett, að landið hlaupi í kapp við þá um það, sem þeim er ekki um megn. En til eru aðrar auðsuppsprettur á þessu landi, svo sem námar og ýmsar afllindir. Það er að vísu vafasamt, hve miklir námar eru hjer, og það er vafasamt, hvort það borgar sig að reka nokkra þeirra, þegar stríðið er liðið hjá, þótt það borgi sig nú. Það er þó rjett, að landið taki þá sjálft til rekstrar, ef gróðavon er af því, vegna þess, að rekstur þeirra er ofvaxinn einstaklingunum, og ef selja á útlendingum rjettinn, er það hætta fyrir litla þjóð og eigi auðuga, því að þótt ekki sje hjer eymd, þá vantar auð. Stór fyrirtæki í höndum útlendinga eru hættuleg á marga lund; það eru sjerstaklega á því 2 veikar hliðar, en þær vil jeg ekki nefna, nema jeg verði neyddur til. Afllindir og fólgnir fjársjóðir eða námar eru í eðli sínu alþjóðareign, Því að þótt kallað sje, að einstakir menn eigi þær, geta þeir ekki hagnýtt sjer þær og verða annaðhvort að selja þær, leigja eða leppa. Það ætti því ekki að leyfa einstökum mönnum að reka slík fyrirtæki, heldur ætti reglan að vera sú, að landið ætti alla slíka hluti, því að hvað sem segja má um jarðirnar — og menn hafa nú verið að deila hjer um það, hvort landið ætti að eiga þær eða ekki — þá er þó ekki hægt að deila um, að landið ætti að eiga alla náma, afllindir og hagnýtanleg náttúruöfl. Það er vafalaust, að fossarnir eru ótæmandi afllind. Allir hafa sjeð fossana falla og straumana streyma og hávaðana, sem nú má nota. — Allar aldir frá því, er land var bygt, hafa liðið svo, að mönnum hefir ekki verið ljóst, hve mikið afl er í fossunum. Menn hafa raunar kunnað hjer á landi að láta þá snúa kvörn og mala mjöl, en ekki þekt, á hve marga lund má hagnýta vatnsafl, t. d. breyta því í rafafl, fyr en það var reynt hjá öðrum þjóðum. Ekki eru nema fá ár síðan þeir Birkeland fundu aðferð til þess að vinna köfnunarefni úr loftinu, en síðan hefir fossaiðnaðinum fleygt fram. Það er rjett, að auðurinn er afl þeirra hluta, sem gera skal, og fje þarf til fossaiðnaðar, en hitt er líka rjett, að afl er auði betra, því að enginn býr til foss, þar sem hann er ekki til, og aflið er meira virði en fjeð, sem þarf til að beisla það.

Menn eru nú farnir að viðurkenna, að foss er farsælt hjú. En hvernig er farið með þetta hjú? Það er alkunna, að hjer eru auðsuppsprettur meiri en menn vissu áður af, en það er líka alkunna, að fólkið er ekki nógu margt til þess að reka þær allar. Bóndinn finnur sárt til í hvert sinn, er nýr framfarakippur kemur í sjávarútveginn, því að þá bregst fólkið frá sveitavinnunni eða verður ofdýrt. Í því landi, sem svo er ástatt fyrir, er sá vinnukraftur, sem býr í fossunum, ekki lítils virði, því að hann er langtum meiri en samanlagt starfsafl allra manna og hesta hjer á landi. Menn ættu nú að skilja, að svo framarlega sem hægt er að beisla þetta afl, má bæta því við vinnukraft landsmanna, og þetta er hægt að gera, svo framarlega sem það verður ekki ofdýrt. Hver á nú að stýra þessu afli? Er það landið sjálft, eða á að láta það lenda í höndum erlendra manna, sem einungis hugsa um að gera sjer sem mesta peninga úr því, án þess að líta einu sinni hornauga á hag Íslands. Jeg er ekki í vafa um, að landið á að hafa meðferð slíkra hluta og leyfa ekki neinum öðrum að fara með þetta afl nje fossaiðnað. Þá vildi jeg fara nokkrum orðum um það, hvers vegna jeg hefi komið fram með þetta frv. Mjer hefir gengið það til, að jeg vil, að landið græði og ráði sjálft öllum sínum afllindum. Jeg vil líka gera grein fyrir, hvort koma mætti þessu í framkvæmd. Það er enginn vafi á því, að gróðafyrirtæki má hrinda í framkvæmd, ef fje til þess fæst í byrjun. Þá kem jeg að því atriðinu, sem mörgum mun sýnast aðalatriðið, nefnilega að heimila stjórninni að taka 20 miljóna króna lán, til þess að byrja á þessu fyrirtæki, kaupa fossana hjer á Suðurlandi, sem næstir eru, og setja í þá þann umbúnað og vjelar, er þarf til þess að breyta vatnsafli í rafafl og leiða aflið síðan á þá staði, sem helst ætti að vinna. Jeg hefi nefnt 20 milj., en ekki 20 kr., eins og einhversstaðar stendur. Jeg hefi nefnt upphæðina alveg af handahófi, en hygg, að hún sje nægilega há, enda ætlast jeg til, að landið leyfi öðrum að taka þátt í fyrirtækinu, og þá verður þetta meira en nóg fje til að byrja með. En þegar slíkt fyrirtæki sem þetta er eitt sinn komið á fót, þá er hægurinn hjá að auka það, með því að fjölga fossunum, sem notaðir eru. Menn hafa spurt, hvar ætti að fá slíkt lán, og er það nokkurskonar áframhald af þeim söng, sem heyrðist hjer í gær, þegar talið var, að landið hefði ekki efni á að greiða starfsmönnum sínum 100—200 þús. kr. í skaðabætur, af því að hagur þjóðarinnar stæði svo tæpt. Það hefir nú verið sýnt fram á, að svo er ekki, enda hygg jeg, að það verði engin vandræði fyrir stjórnina að útvega þetta lán, sjerstaklega þegar vitað er, að það á að nota til fossaiðnaðar. Jeg veit af 2 stöðum, þar sem jeg treysti sjálfum mjer persónulega til að fá slíkt lán, óðar en jeg kemst út yfir hafið. Auk þess eru sterkar líkur fyrir því, að öll stór fossafjelög, sem starfa annarsstaðar, væru fús á að lána Íslendingum þann helming stofnfjárins, er þyrfti að taka að láni, gegn því, að fjelagið fengi að kaupa hluti í fyrirtækinu, án annara rjettinda en þess hagnaðar, er því bæri að tiltölu við hlutafje. Jeg þykist ekki þurfa að lofa því upp í ermina mína, að jeg treysti mjer til þess að fá slíkt lán hjá fossafjelagi í Noregi og öðru í Þýskalandi, sem jeg þekki. Ef svo fjelagið vildi vera í samvinnu við landsstjórnina, þá er engin hætta á, að fje mundi bresta.

En menn geta af þessu sjeð, hversu mikill munur þetta er, að með þessu væri því snúið á rjettan enda, sem áður stóð á höfði, að í stað þess að láta útlenda fjármálamenn útiloka okkur frá því, sem best er í þessu landi og mest auðsuppsprettan fyrir landsins börn, þá tækjum vjer sjálfir fossa vora og hagnýttum þá í eiginhagsmuna skyni.

Jeg get ekki skilið, að nokkur tormerki verði á að fá menn, sem bæði hafa vit og þekking, til að standa fyrir verkinu. Því að þótt það yrði mjög vandasamt og mikið starf, sem krefst mikillar kunnáttu og reynslu, þá vitum vjer, að víða um lönd eru til góðir menn, sem hafa þetta til að bera. Að eins vildi jeg gefa mönnum það ráð, að spara ekki laun þessara manna. Þeir eru því ekki vanir, að þeim sje skift úr hnefa, og þá ættum vjer síst að verða til þess, er svo mikið lægi við. — Það getur verið, að mismunandi sje, hvar slíkra manna er leitað, en jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að eftir þjóðháttum í Þýskalandi að dæma væri tryggast að ráða menn þaðan.

Af því að mjer dettur það í hug, ætla jeg rjett að minnast á eitt atriði í sambandi við fossafrv., sem var í háttv. Ed. fyrir nokkrum dögum. Í því er talað um járnbraut, sem leggja eigi hjer til Reykjavíkur. Mjer er nú svo farið, að jeg get varla fengið mig til að tala um járnbraut í þessu sambandi, því að hún hefir þar ekkert að gera. við slík fyrirtæki og hjer er hjer að ræða eru járnbrautir ekki notaðar nema rjett á meðan verið er að flytja það, sem til fyrirtækisins þarf til og frá fossinum.

Og til þess eru eingöngu notaðar mjósporaðar brautir, líkt og hjer við hafnargerðina t. d. Síðan er rafaflsstraumurinn leiddur í þráðum þangað, sem verksmiðjan á að standa, og þá frá Sogsfossunum yfir undir Esjuna. — Jeg geri ráð fyrir, að sá, sem þetta fyrirtæki ætti, mundi vilja ná tangarhaldi á Esjunni, til að vinna kalk úr, en þangað þarf enga járnbraut, þar sem sjóleiðin liggur opin.

Annað mál væri það, ef samið væri um einkaleyfi til einhvers fyrirtækis, hvort hlutaðeigendur væru látnir borga leyfið í peningum, eða með því að leggja járnhraut. En á hitt er að líta, að járnbrautarmálið mundi horfa alt öðruvísi við, ef landið sjálft ætti fyrirtækið og hefði umráð yfir fossunum, því að þá ætti það kraftinn vissan til notkunar. Jeg segi þetta af því, að jeg þykist viss um, að enginn láti sjer detta í hug, að við færum að nota kol til að reka brautina. Flestir háttv. þingmenn munu þekkja svo mikið til járnbrauta, að þeim sje það kunnugt, að Svíar hafa mikið reynt að nota rafmagn í staðinn fyrir kol, og hefir gefist ágæflega vel. Menn þekkja sumar af þessum brautum, að minsta kosti að nafninu, t. d. brautina milli Óslóar og Hólmahvols, á nútíðarmáli Kristianiu og Holmenkollen, sem er rafmagnsbraut, og er ágætt að ferðast með, eins og þeir vita, er farið hafa.

Aðalatriðið í þessu máli er þetta, að ef vatnsaflið er fyrir hendi, og fossinn er tekinn til að reka annað fyrirtæki, svo að sá kraftur, sem til járnbrautarinnar þyrfti, mundi ekki kosta neitt, þá mætti tala um að leggja járnbraut, en fyr ekki. — Menn þurfa ekki að láta reikna út fyrir sjer, hvað eitt óvarlega stigið spor í þessu máli gæti komið til að kosta. Jeg þarf ekki að fara lengra en minna á gasið hjer í Rvík og þá hróplegu glópsku, er þá var framin, er það var tekið í staðinn fyrir rafmagn. Af því dæmi geta menn best sjeð, hverjar afleiðingar slíkt getur haft, að selja öðrum aflið í hendur, heldur en hafa það sjálfur. Hversu varlega, sem menn vilja fara í þesskonar málum, að gera samninga um afsal á auðsuppsprettum landsins, þá er aldrei hægt að ganga svo vel frá samningum, sem eiga að gilda í 100 ár, að afkomendurnir fái ekki ástæðu til að bölva oss frá kyni til kyns fyrir að hafa ekki gætt þess, sem átti að vera oss dýrmætast. Það, sem rekið hefir mig af stað til að koma með þetta frv. nú, er einmitt hræðslan við þetta. Jeg vil með því halda mönnum vakandi gegn ásælni útlendinga hjer á landi, og sýna mönnum fram á, að hjer er hætta á ferðum, sem engum má dyljast. — Vjer höfum þess mörg dæmi annarsstaðar að, hvernig farið hefir fyrir þeim, sem hafa ekki staðist erlenda freistara og það ofbeldi, er þeir hafa orðið að þola fyrir þá sök. Þau ættu að geta kent oss, að lítilþægni og undirgefni eru slæmir verðir fyrir dýrmætum fjársjóðum. — Nú vil jeg spyrja þá ágætu sparnaðarmenn, sem hjer eru saman komnir á þingi, hvort þeir vilji ekki verða mjer samferða og spara, ekki einungis þá aura, sem landssjóður á í fórum sínum, heldur líka auðlegð þessa lands í framtíðinni, og vernda það fyrir öðrum, sem á það kunna að leita. Hjer er ekki að tala um sparnað, sem nemi að eins nokkrum tugum miljóna, og ekki heldur hundruðum miljóna eða þúsundum miljóna; það er meira en svo. Hjer er verið að spara miljónir miljóna. — Jeg vona, að jeg nefni ekki hjer svo ægilega upphæð, að menn þess vegna haldi, að jeg sje að fara með þvaður. En þeir, sem ekki trúa, ættu að reikna út, hvað upphæðin gæti orðið há eftir ekki lengri tíma en 100 ár.

En svo er líka önnur hlið á þessu máli, sem ekki má ganga fram hjá, og er meira virði en allar þessar miljónir, sem jeg nefndi áðan. Það gæti svo farið, ef sú ranga stefna væri tekin upp, að selja útlendingum í hendur fjársjóði landsins, í staðinn fyrir að hagnýta þá sjálfir, þá gæti svo farið, að vjer mistum þann dýrmætasta fjársjóð, sem þjóðin á, en það er sjálfstæði hennar og þjóðerni. Og þá mundi það sjást á sínum tíma, hvorir hefðu verið sparsamari á þessum tíma, þeir, sem vildu spara það dýrasta, fossana og rjettindin til auðlindanna, eða þá hinir, sem seldu þá fyrir fyrsta boð, til að geta sparað í því smáa, svo sem mat við fátæka menn.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta að sinni, en rjett geta þess, að jeg hafði fyrst hugsað mjer, að þetta mál væri sett í sjerstaka nefnd, en er jeg athugaði það nánara, sá jeg, að það mundi best komið í fjárhagsnefnd, og vil jeg því biðja háttv. deild að láta það fara þangað, að lokinni umræðu.