08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í C-deild Alþingistíðinda. (3365)

122. mál, sala á þjóðjörðinni Höfnum

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Hæstv. forsætisræðherra tók fram, að jeg væri í nokkurri mótsögn við það, sem haldið hefði verið fram hjer í deildinni, að stjórnin hefði frjálsar hendur til að hækka verð þjóðjarða, ef hún teldi það sanngjarnt. Það er ekki svo, vegna þess, að þegar stjórnin hækkar einhverja jörð, hefir hún heimild til að fá yfirmat eða fá upplýsingar hjá kunnugum mönnum. En jeg gerði ráð fyrir, að hún mundi heldur leita fyrir sjer.á þann veg en fara eftir eftirgjaldstilboði manns, er aldrei hefir að jörðinni komið. Þetta er óeðlilegt, ekki síst þar sem stjórnin hefir ekki athugað neitt áður. Er jeg því ekki að halda því fram, að það geti ekki verið rjett að hækka verð jarðanna, en það verður að gera af stjórninni á annan hátt en þennan, ef rjettlæli og sanngirni á þar nokkru að ráða, og það þykist jeg vita, að landsstjórnin vilji ekki gefa fordæmi til hins gagnstæða.

Hæstv. atvinnumálaráðherra spurði áðan um ábúanda, og hefi jeg svarað því. Það hefir verið tekið fram, að ábúandi sitji ekki á jörðinni. Jeg veit ekki betur en ekkjan sje þar á sumrum að meira eða minna leyti, þótt hún láti son sinn reka búið, en annars sýnist mjer það út af fyrir sig ekki miklu máli skifta.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) tók nokkuð djúpt í árinni, eins og honum er lagið, og sagði, að það gengi glæpi næst að selja þessa jörð, En nú er svo um búið, að ekki er hægt að stemma stigu fyrir því, ef ábúandi vildi kaupa fyrir það verð, er stjórnin setur, en það vill hann ekki, álitur það ofhátt. Hann gat þess, að hann hefði farið og skoðað jörðina, og veit jeg, að skoðun hans getur verið óvilhöll, þótt jeg sje hræddur um, að svo geti ekki verið nú, er skoðun hans á þjóðjarðasölu er slík sem kom svo sterklega fram í ræðu hans, einmitt að því er þessa jörð snertir. Enda virðast athuganir hans og áætlanir í einstökum atriðum nokkuð af handahófi, og sumar alveg tilbúnar. Hann talaði t. d. um dúntekjuna, Eftir mínum kunnugleika hygg jeg rjett vera, að hún verði til jafnaðar 170 pd. á ári. Rjett er það, að fyrir 1880 var hún miklu meiri, en hafísinn spilti henni þá. Svo var hún aftur farin að hækka, en 1902 lækkaði hún aftur. Mun hún nú ekki yfir 170 pd. að meðaltali. Þessi áætlun styður það, að umboðsmaðurinn hjelt því fram, að hún væri um 200 pd., og mun hafa ætlað að fá skýrslu um það hjá kaupmönnum. Þær skýrslur eru ekki komnar, og mun það stafa af því, að hann hafi ekki getað fengið neinar skýrslur sínu máli til stuðnings. Þá er selveiðin. Um hana er þess að geta, að hún er aðallega fyrir landi Kaldrana. Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hristir höfuðið. Þetta hafa sagt svo nákunnugir menn, að jeg verð að taka meira mark á því en heimildum hans. Silungsveiði hefi jeg ekki heyrt getið um áður í Hafnalandi, svo að neinu nemi. Ekki hefi jeg heldur heyrt fyr, að Hafnir væru slægjujörð. Það er einmitt hennar mikli ókostur, að slægjur vantar mjög. Þar eru að vísu dálitlar slægjur, en afarerfiðar, langt uppi á heiði, og vont hey og erfiður vegur. Skárstu slægjurnar munu vera í Kaldranalandi.

Ef maður athugar hlunnindin, verður maður þess var, að sumar afurðir geta ekki hækkað mjög verð jarðarinnar sem stendur. T. d. er dúnn ekki seljanlegur. Og afurðahækkunin, sem hleypt hefir jarðaverðinu upp nú síðustu ár, getur ekki, nema að mjög litlu leyti, átt við þessa jörð.

Jeg býst við, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) muni aftur tala langt mál, og telja upp nýja kosti, og veit jeg ekki, hvort jeg kann að svara því.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) gat þess, að 2—3 ár hefðu liðið frá því er virt var og til þess er kauptilboð kom. Virðingin fór fram, að því er jeg ætla, 6. júlí 1912, en haustið 1915 var beðið um kaup. Og, eins og jeg tók fram áður, var önnur jörð í sama hreppi virt um leið, og seld nákvæmlega með sama verði og hún var virt fyrir. Það getur því ekki verið annað, sem hækkar verðið, en þetta kauptilboð. Þótt jeg geti gengið inn á, að stjórnin hækki jarðarverð eftir upplýsingum kunnugra, get jeg ekki gengið inn á, að rjett sje að hlaupa til að hækka eftir tilboði manns, sem aldrei hefir til jarðarinnar komið. Út á ábúðina var ekkert að setja þegar hún var skoðuð, eftir fyrirskipun stjórnarráðsins. Hún var álitin í góðu lagi og fullkomlega lögleg.

Jeg sje, að jeg hefi hlaupið yfir eitt atriði í ræðu hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) viðvíkjandi því, að gott sje að gera sumarhöfn við Hafnir, fyrir síldveiði; vil jeg taka fram, að það hefi jeg aldrei heyrt fyr. Ef hann heldur því fram í alvöru, getur það varla verið fyrir sjerstaka athugun, því að á Kálfshamarsvík, ekki alllangt þaðan, þar sem er besta höfnin þar nærlendis, og öll fiskiskip leita inn á, er hafnar leita á þeim svæðum, væri líklegra að gera sumarhöfn en þarna. Hvað útræði snertir, hefir það alveg lagst niður og ekki verið reynt lengi. Gefur það ekki hugmynd um, að þarna hagi sjerlega vel til hvað það snertir.

Jeg held svo ekki, að ástæða sje til að svara fleiru að sinni.