23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Árnason:

Það hafa margir háttv. þm. byrjað ræður sínar með þakkarávarpi til fjárveitinganefndar og samgöngumálanefndar fyrir það, er þær hafa látið af hendi rakna.

Þessu er dálítið öðruvísi háttað með mig, því að mjer finst jeg hafa fremur lítið að þakka. Jeg hefi leyft mjer að koma fram með tvær brtt., á þgskj. 570 og 575. Jeg skal ekki vera langorður um þessar tillögur mínar, þar sem háttv. nefndir hafa þegar dæmt þær til dauða, ásamt öllum öðrum brtt. háttv. þm. En þar finst mjer satt að segja kenna meir harðdrægni en rjettlætis. Jeg skal auðvitað játa, að það er þægilegast og umsvifaminst að slá einu striki yfir alt þess konar; en þá er ekki jafnvíst, að flutningsmenn till. verði vel ánægður.

Jeg ætla fyrst að fara nokkrum orðum um brtt. 570. Jeg get vel fallist á það, sem sagt er í nefndaráliti fjárveitinganefndar, að ekki sje ráðlegt að byggja brýr eins og nú er ástatt. En með þessari till. fer jeg að eins fram á það, að nokkru af því fje, sem Eyjafjarðarbrúnni er ætlað, verði varið til vegagerðar að brúarstæðinu, ef brúin verður ekki bygð.

Það er öllum kunnugt, sem nokkuð til þekkja, að það þarf allmikið fje til að gera þennan veg, svo að gagni komi. Og ekki er hægt að ætlast til, að tvent verði gert í einu, bæði að byggja brúna og leggja veginn. Nú hefir fjárveitinganefnd tekið það fram, að þessi fjárveiting sje ekki endilega bundin við brúarbygginguna, heldur megi verja einhverju af henni eða allri til vegagerða, eftir tillögum vegamálastjóra, og þótt háttv. framsm. (M. P.) tæki það fram, að vel gæti verið, að þessi vegarkafli nyti góðs af fjárveitingunni, þá vantar mig alla vissu fyrir því. Tillaga mín fer því fram á að tryggja það, að þessu fje verði ekki öllu varið til annara vega einhversstaðar annarsstaðar á landinu. Jeg get því ekki sjeð, að nefndin hafi neina ástæðu til að vera á móti þessu. Hún segir, að þetta eigi að gera eftir tillögum verkfræðings. En þá er fyrst fyrir hendi að tryggja það, að fjenu verði varið á þennan hátt.

Þessi vegkafli að brúarstæðinu er töluvert þýðingarmikið atriði, því að hann mundi greiða mjög mikið fyrir mönnum að komast yfir ána, þótt brúin sjálf verði ekki bygð, því að þeir, sem til þekkja, vita það, að oft er ófært að komast yfir ána, að eins fyrir þá sök, að þennan vegkafla vantar.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að þessi till. sje í alla staði rjettmæt og jafnframt meinlítil, þar sem hún fer ekki fram á neina nýja fjárveitingu, og því sje útlátalaust að samþykkja hana.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að till. 575. Þessi till. fer fram á það, að það sem samgöngumálanefnd kallar Langanesbát, sje nefndur »Eyjafjarðarbátur«, og ferðasvæðið stytt þannig, að hann fari ekki austur fyrir Langanes. Það virðist vera lítil sanngirni í því, að þessum bát eru ætlaðar lengstar og erfiðastar ferðir, þótt hann hafi hvergi nærri hæstan styrk. Þetta lengdarsvæði, sem þessum bát er ætlað, er eitthvert það allra versta, sem bátar hafa, því að hafnir eru þar margar og slæmar viðkomu. Hefir mjer talist svo til, við fljóta athugun, að viðkomustaðir hans muni ekki verða færri en 30. Má af því ráða, hversu greiðar samgöngur þetta muni verða. Er þar ólíku saman að jafna og t. d. þeim bát, sem gengur milli Seyðisfjarðar og Hornafjarðar, sem bæði hefir langt um styttra ferðasvæði og miklu betri hafnir.

Á aukaþinginu í vetur var ákveðið, samkvæmt tillögum samgöngumálanefndar, að Austfjarðabáturinn hefði alla Austfirði, frá Langanesi til Hornafjarðar. Sýndist það vera mjög skynsamleg ráðstöfun, og því óskiljanlegri eru þessi veðrabrigði háttv. nefndar. Hvað Eyjafjörð snertir þá hefir hann hvergi nærri haft nægilega góð not af þeim bát, sem hann hefir haft, því að eins og menn geta sagt sjer sjálfir, sem þekkja til hins mikla útvegs, sem þar er rekinn, þá þarf mjög tíðar ferðir um fjörðinn sjálfan og næstu hafnir. En samkvæmt þessari ráðstöfun á hann að missa það litla, sem hann hefir haft, án þess þó að fá nokkuð nýtilegt í staðinn. Þvert á móti mun nauðsyn á, að bátur gangi um fjörðinn alt árið, því að þar hagar víða svo til, að ekki er hægt að flytja vörur að eða frá Akureyri, nema á sjó.

Af þessu ferðalagi hefir það stafað, að mótorbátaeigendur hafa stundum orðið að setja fram báta sína síðla vetrar, til að sækja matvörur til bjargræðis sveitarmönnum og annað, er þeir þurftu til útgerðarinnar. Setja þeir bátana með þessu í stórhættu, á hinum slæmu höfnum við fjörðinn, enda hafa þeir oft orðið fyrir miklu tjóni, því að bátar hafa farist og brotnað óvátrygðir. Er þar skemst á að minnast, að á síðastliðnum vetri brotnuðu af þessum ástæðum 3 bátar í Ólafsfirði, og má nærri geta, hvílíkt tjón það hefir verið eigendunum. Þetta atvik hefði ekki komið fyrir, ef góður bátur hefði haldið uppi föstum ferðum um fjörðinn.