25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í C-deild Alþingistíðinda. (3447)

65. mál, aðflutningsbann á áfengi

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þetta frv. nú, álit þess ekki þörf. Breytingarnar, sem það fer fram á, eru svo auðsæjar, ef þær eru bornar saman við lögin, að engin þörf er á skýringum. Það er á allra vitorði, að bannlögin eru ekki haldin sem skyldi, en það er skylda þings og lögreglustjóra að sjá um, að þau sjeu haldin eins og önnur lög. Það brestur á, að sum ákvæði í lögunum sjeu nógu skýr til þess, að þau geti náð tilgangi sínum. Það, sem sjerstaklega er áfátt, er ófullkomið eftirlit með skipum og ýmiskonar farangri, er frá útlöndum flyst. Það er að eins hjá áhugasömustu lögreglustjórum, sem eftirlitið er gott. Það er opinbert leyndarmál, að til eru lögreglustjórar, sem ekki gæta þess, að lögin sjeu haldin eins vel og skyldi. (M. G.: Hverjir eru það?). Jeg veit ekki, hvort háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) græðir nokkuð á því, að þeir sjeu nefndir. Til þess, að hægt sje að hafa fult eftirlit með, að lögunum sje hlýtt, verður að mega rannsaka farangur manna. Það er líka opinbert leyndarmál, að til eru menn, sem hafa það að atvinnu að flytja vín til landsins og okra á því, og þarf við slíku harðar refsingar, því að það er ólíkt að neyta víns sjálfur og afla þess handa sjálfum sjer, og hitt, að nota fýsn annara til að okra á. Það mun enginn, jafnvel þótt hann hafi mikið út á lögin að setja, mótmæla því, að við slíku ættu að liggja harðar refsingar. Það hefir líka bryddað á, að þeir, sem heimilt er að fá áfengi til iðnaðarþarfa, misbrúka þá heimild, enda er eftirlitið slælegt, og verður eftirleiðis að gæta betur að, að þeir menn fái áfengi til iðnaðarþarfa, sem þess þurfa, en ekki meira, og ekki til að gera sjer að atvinnuvegi. Eitt ákvæði bannlaganna getum við tæplega verið þektir fyrir að hafa, og það er leyfið, sem íslenskum skipum er gefið til að hafa vín hjer upp við land. Það er mjög óviðkunnanlegt, þegar vínbann er í landi; og slíkt ákvæði á ekki heima í þessum lögum.

Enn fremur er farið fram á í frv. þessu, að ef ölvaðir menn láta á sjer bera og gera sig seka í óviðeigandi framkomu á almannafæri, skuli þeir sæta hegningu. Jeg skil ekki í, að nokkur sje á móti því, því að slíkt er alveg óhafandi í voru landi. Loks er ein breyting, sem farið er fram á í frv. þessu, og það er viðvíkjandi vínbirgðum einstakra manna.

Það hefir bólað á því, að þegar ölvaðir menn hafa verið spurðir um, hvar þeir hafi náð í áfengi, þá hafa þeir þóst hafa fengið það hjá þeim mönnum, er vínbirgðir hafa gefið upp.

Það á ekki að gera þeim, sem eiga vín, fjárhagslegt tjón, því að þeir eiga að fá að koma vörunni af sjer, eða fá fje sitt endurgreitt. Það er óviðkunnanlegt, að einstakir menn hafi leyfi til að hafa vínföng ár eftir ár, og mælir engin sanngirni með því. Því er ekki hægt að neita, að bryddað hefir á mótþróa gegn bannlögunum, en það er svo með öll lög, og jeg hygg, að andstæðingar þeirra verði að viðurkenna, að þau hafa verið til stórbóta, og þótt þeir sjeu á móti lögunum í sjálfu sjer, eru þeir ekki móti því, að sem minst sje neytt af þessari óþarfavöru. Mjer dylst það ekki, að bannlögin eru ein hin bestu lög, sem íslenska þjóðin hefir öðlast, því að þau auka menningu og þroska og framfarir, en þó því að eins, að þeirra sje gætt, svo að þau fái að njóta sín og ná tilgangi sínum. Það má skoða þau sem gimstein, sem þjóðin má ekki skemma, heldur verður að gæta sem best. Mjer blandast ekki hugur um, að þetta frv. er til mikilla bóta, ef vel er með farið. Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um það, en stinga upp á, að því sje vísað til sjerstakrar 5 manna nefndar til athugunar.