14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í C-deild Alþingistíðinda. (3503)

130. mál, útflutningsgjald af síld

Matthías Ólafsson:

Það er góðra gjalda vert, að þingmenn leiti allra ráða til að afla tekna í landssjóð, en þá svo, að miðað sje við heppilega og sanngjarna tekjustofna. Þetta verður ekki sagt um það frv , sem hjer liggur fyrir. Það legst á á einn atvinnuveg, sem einmitt nú, vegna styrjaldarinnar, stendur höllum fæti. Hv. flm. (S. S.) ætlast ekki til þess, að frv., ef það verður að lögum, komi til framkvæmda fyr en 1. jan. 1918. Það er rjett eins og hann viti, að þá muni ófriðnum ljett af, en hann er víst sá eini maður í þessum sal, sem lætur sjer slíkt til hugar koma. Það er nú svo ástatt um síldarútveginn, eftir því verði, sem á öllu er, sem þar til þarf, að aflinn þarf að verða mikill til þess, að síldveiðar borgi sig. Þótt síldaraflinn yrði meiri en hann hefir nokkru sinni áður orðið, gæti aldrei orðið um neinn verulegan stórhag að ræða, hvað þá þegar athugað er, hvað kol og steinolía kostar nú. Jeg held, að varla hafi komið fram ósanngjarnara frv., ekki vegna upphæðarinnar, heldur vegna ástandsins, sem hv. flm. (S. S.) taldi þó mæla með frv.

Hv. flm. (S. S.) sagði, að frv. í vetur hafi gengið í sömu átt, en þá var líka samtímis frv. um verðlaun fyrir útflutta síld, sem að nokkru leyti „annulleraði“ eða afnam hitt frv., nema það er tók til útflutninga. Nú í sumar eru engir útlendir síldveiðamenn hjer við land, nema eitt fjelag, og engin líkindi til þess, að þeir verði nokkrir næsta sumar, sem ekki er við að búast, með því að Englendingar setja Norðmönnum þá kosti, að skip þeirra verði að koma við í Englandi.

Það var leiðinlegt, að hv. flm. (S. S.) skyldi ekki finna önnur ráð, t. d. gjald á kjöti; það verður vist nóg til útflutnings í haust, því að sjálfsagt verður miklu slátrað sökum grasbrests. En hann hefir líklega ekki munað, eftir því. Það er ekki svo að skilja, að jeg vilji fara að leggja á kjöt. Yfirleitt held jeg, að ekki eigi við að leggja gjald á framleiðsluna í landinu.

Jeg held, að ef nokkurntíma hefir verið ástæða til þess að fella nokkurt frv., þá sje hún nú fyrir hendi, svo að ekki er einu sinni eyðandi orðum að þessu frv., með öðrum orðum, lengra á frv. ekki að komast.