09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í C-deild Alþingistíðinda. (3522)

134. mál, veðurathugunarstöð í Reykjavík

Benedikt Sveinsson:

Jeg er þakklátur hv. þm. V -Ísf. (M.Ó.) fyrir liðlegar undirtektir hans, og býst við, að frv. nái fram að ganga á skynsamlegan hátt, verði sent mentamálanefnd, er taki það til rækilegrar athugunar og geri þá tillögur um, hvort setja skuli upp þessar stöðvar nú þegar eða síðar meir.

Jeg get að eins ekki fallist á þau orð hv. þm. V.-Ísf. (M.Ó.), að ekki sje hægt nú að færast þetta í fang, með því að símasamband sje ófullkomið til andnesja landsins. Jeg held þvert á móti, að símasamband sje nú því nær orðið svo fullkomið, sem orðið getur. Sími er t. d. kominn á Langanes, að vísu ekki út á tá, en til Þórshafnar, og kemur það í einn stað niður. Sama er að segja um Sljettu. Þangað er sími kominn til Raufarhafnar. Sjálfsagt er og gott að hafa veðurathuganastöð á Hornströndum, og þess er nú eigi langt að bíða, að þangað verði lagður sími, þ. e. til Aðalvíkur, en þangað til mun vera mikið gagn að því að hafa veðurathuganir á Ísafirði.

Jeg skal benda á það, að kostnaðurinn við slíkar veðurathuganastöðvar mundi aldrei nema miklu. Hjer hafa veðurathuganir farið fram í nálega 40 ár, og menn gert þær fyrir lítið eða ekkert, og nú eru þær gerðar í sambandi við landsímann, og birtar daglega. Þess vegna er ekki að ræða um aukna síma nje mikið aukinn kostnað við veðurathuganir. Aðalkostnaðurinn yrði sá, að hafa mann eða menn hjer í Reykjavík, sem þekkingu hefir til þess að draga rjettar ályktanir af veðurskýrslum þeim, sem gerðar eru í landinu og sendar hingað.

Að svo mæltu vænti jeg þess, að hv. mentamálanefnd taki frv. til ítarlegrar athugunar.