10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í C-deild Alþingistíðinda. (3536)

188. mál, kjötþurkun

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Það er eflir ósk þessa manns, sem nefndur er í gr. frv., sem landbúnaðarnefndin ber það fram. Auðvitað eru ekki mikil líkindi til, að það nái fram að ganga á þessu þingi. En nefndin sá þó ekki ástæðu til að neita manninum um að flytja frv. inn á þingið, af þeirri ástæðu, að hún álítur, að málið sje þess vert, að því sje gaumur gefinn, en þess vil jeg geta, að nefndin var hikandi við að bera frumvarpið fram, af því að ekki alls ólík mál hafa hjer á fyrri þingum verið gerð að lögum, og alls enginn árangur enn orðið af þeim. En hjer er ekki um eins risavaxið fyrirtæki að ræða og hin önnur einkaleyfi, sem hafa verið veitt.

Þessi maður hefir aflað sjer meðmæla frá þeim mönnum, sem aðallega fjalla um þessi mál, eða samkvæmt stöðu sinni hafa sjerstök afskifti af þeim, sem eru Búnaðarfjelag Íslands, Sláturfjelag Suðurlands og Samband Samvinnukaupfjelaganna, er öll hafa gefið honum meðmæli. — Það sem aðallega hefir hvatt manninn til að koma fyrirtækinu nú á fót, er það, að hann álítur tímann, sem yfir stendur, vera hentugan til að útvega markað í útlöndum fyrir þannig verkað kjöt, þar sem matvælaskortur er jafnvel í öllum nálægum löndum. Hann hefir skýrt nefndinni frá, að reynsla sje fengin fyrir því í útlöndum, að kjöt, sem þannig er verkað, missi ekkert af sínu næringargildi, og að því leyti sje þetta hagkvæmari aðferð en bæði söltun og frysting.

Þá hefir nefndin spurst fyrir um það hjá leyfisbeiðanda, hvort hann mundi geta fullnægt öllum kröfum framleiðenda framvegis um þurkun á kjöti, ef svo færi, að eftirspurnin yrði mikil, svo að aðrar verkunaraðferðir yrðu jafnvel síður notaðar, og kvaðst hann geta þurkað mörg tonn af kjöti á einurn sólarhring, enda geta sett á stofn vjelar á fleirum stöðum á landinu, svo að allir landsmenn mundu geta notið aðferðarinnar, tækist sjer að fá eftirspurn vörunnar í útlandinu. Enn fremur hefir hann skýrt nefndinni frá því, að vjelar þær, sem hann þurfi að nota, hljóti að verða svo dýrar, að hann sjái sjer ekki fært að byrja á þessu, fyr en hann fái þetta einkaleyfi, svo að hann þurfi ekki að óttast, að tilraunin verði eyðilögð fyrir sjer, þegar hann hefir lagt fram kostnaðinn og vakið eftirspurn vörunnar.

Frv. vísað til 3. umr. með 14 shlj. atkv.