10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í C-deild Alþingistíðinda. (3571)

151. mál, vatnsafl í Sogninu

Magnús Torfason:

Jeg skal strax lýsa yfir, að jeg er ánægður yfir, að það sjest eitthvað bóla á því, að við eigum að geta haft einhver not af þessu mikla og mesta afli, sem við eigum í landinu, fossunum. Og jeg get líka verið ánægður yfir því, úr því að þetta mál var borið fram hjer á þinginu, að það skyldi fyrst vera borið hjer fram. Það sýnir, að það er farið að líta svo á, að þessi hv. deild standi hinni jafnfætis, og bendir til þess, að hún sje skoðuð sem þungamiðja þingsins.

Það, sem kom mjer til að taka til máls, voru ummæli hæstv. forsætisráðherra, þar sem hann ljet þá ósk í ljós. ekki fyrir hönd stjórnarinnar, heldur fyrir sína eigin, að þetta mál næði fram að ganga á þessu þingi.

Fyrir mjer lítur málið svo út, að það eigi ekki að ganga fram á þinginu, sakir þess, eins og getið hefir verið um, að málið er alveg óundirbúið. Mjer skilst, að mál eins og þetta þurfi að fá nákvæman undirbúning, stjórnin verði að undirbúa það, með aðstoð þeirra fróðuslu manna, er hún getur haft völ á, og jeg vil enn fremur taka það fram, að eflir því, sem mjer er kunnugt, þá getur stjórnin ekki haft aðstað óvilhalla fagmanna hjerlendra, því að þeir eru allir, eltir því er jeg veit best, að meira eða minna leyti flæktir við þetta fyrirtæki eða þessu lík. En jeg tel óráð að ráða þessu máli til lykta fyr en við höfum fengið aðstoð bestu sjerfræðinga um þessi efni, og það jafnvel erlendra sjerfræðinga.

Jeg verð líka að segja það, að jeg get ekki sjeð annað en að hlunnindi þau, sem við eigum að fá, liggi nokkuð í lausu lofti. Þau eru svo loðin, að ekkert er hægra fyrir fjelagið en að komast hjá þeim. Því að vjer vitum það, að þessi stóru fjelög hafa oft ýms góð ráð til þess að sjá um, að ágóðahluti almennra hluthafa verði ekki ofmikill. Menn þekkja dæmi þess, að stjórnir slíkra fjelaga hafa tekið sjer ósmáar góflur, og í stjórnunum eru venjulega þeir menn, er mest eiga í fjelaginu, en það, sem þó sjerstaklega hneykslar mig í þessu frv., er að jeg sje ekki betri en að það sje engin trygging fyrir því, að stjórn fjelagsins verði innlend.

Það stendur vitanlega í frv., að stjórnin eigi að vera heimilisföst hjer á landi, en jeg álít það enga tryggingu. Það þarf ekki annað en benda á það, að fjelag með öðru eins fjármagni og hjer er um að ræða munar ekkert um að hafa einhver aflóga skyldmenni hinna virkilegu eigenda til að sitja hjer uppi með allmikla fúlgu, og eru þeir þá heimilisfastir hjer, en þó ekkert annað en verkfæri útlendinga þeirra, er fjelagið eiga og stjórna því; sem sagt býst jeg við því, að það þurfi að ganga svo miklu betur frá því, að stjórnin verði innlend, ef þetta ákvæði á að koma að nokkru gagni. Það verður að ganga svo frá því, að útilokað sje, að stjórnin sje leppuð.

Enn fremur verð jeg að líta svo á, að þingnefndir geti ekki undirbúið þetta mál að neinu leyti svo vel, að samviskusamir menn geti tekið þá ábyrgð á sig, að veita því fylgi sitt gegnum þingið, og árangurinn verði því ekki annar en sá, að tefja stórkostlega fyrir öðrum þingstörfum. Hitt er annað mál, að jeg hefði ekkert á móti því, að þetta mál væri tekið upp aftur í lok þingsins með þingsályktunartill., og gæti stjórnin og þingið til þess tíma athugað það, hvernig það yrði best gert.

Jeg verð að taka undir það með hv. 2. landsk. þm. (S.E.), að það er alls ekki ætlunin með dagskránni að vísa þessu máli á bug. Vjer viljum að eins ekki gerast fljótráðir í þessu máli, sem líklega hefir meiri þýðingu fyrir þetta land en nokkurt annað mál, er upp hefir verið borið á þingi.

Það, sem jeg álit að þyrfti að gera sjerstaklega, áður en þessu máli er ráðið til lykta, er að undirbúa tilboð til notkunar fossanna. (E.P.: Það er ekki hægt að bjóða út Sogsfossana). O-jú — jeg vil leyfa mjer að benda á 12. gr. fossalaganna, lög nr. 55, frá 22. nóvbr. 1907; þar segir svo: „Hver maður er skyldur til, gegn fullum skaðabótum, að láta af hendi fossa sína, ár eða læki, og jarðir þær, er þar að liggja, eða rjettindi, sem hann hefir yfir þeim, þegar almenningsheill krefst þess, til mannvirkja í þarfir landsins eða sveitarfjelaga“. Jeg get ekki sjeð betur en ef á að fara að vinna hjer áburð úr loftinu, þá sje það fyrirtæki sjerstaklega í þarfir landsins. Með öðrum orðum, spurningin verður því, hvort landið ætti ekki að kaupa fossana, eða hvort landið ætti ekki á einhvern hátt að taka þátt í þessu fyrirtæki.

En að ráða því til lykta á þessu þingi sje jeg engin lök á fyrir þá, sem vilja vera varfærnir. (H.H.: Og þversum).

Jeg skal ekkert mæla til þeirra manna, sem kunna að vera þessu máli fylgjandi, því að það hefir komið fram, og það vitum við best, er höfum þinglesið flesta samninga um fossa hjer á landi, að þegar fossar berast á góma, þá er eins og komist beinlínis herfjötur á menn; þá er eins og þeir sjái ekkert annað en þann hag, er næst blasir fram undan, en gæti ekki þess, að hjer er um auðæfi að ræða, sem vaxa í verði á hverju ári, svo mjög, að það er ekki hægt að gera sjer neina hugmynd um það.