03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í C-deild Alþingistíðinda. (3600)

97. mál, hámarksverð á smjöri

Hákon Kristófersson:

Það, sem gefur mjer tilefni til að standa upp, eru orð hv. 1. þm. Reykv. (J.B.) um kaupmenn við Breiðafjörð, sem hefðu selt sykur svo háu verði, að þeir hefðu ekki viljað taka landssjóðssykur, sem hefði verið seldur með lægra verði. (J.B.: Það var ekki í kjördæmi þingmannsins, enda þótt það væri við Breiðafjörð). Jæja, jeg held nú, án þess að jeg ætti að fara að taka málstað kaupmanna sjerstaklega, að margir kaupmenn hefðu selt vörur sínar að mun ódýrari, bæði sykur og annað, ef verðið á landssjóðsvörunum hefði ekki skapað fordæmið. Jeg held, að það sje annars best, vegna hæstv. landsstjórnar, að fara sem allra minst út í samanburð á vöruverði kaupmanna yfirleitt og verði því, er stjórnin hefir sett á sínar vörur, því að vissulega hefir það, eftir því er jeg best veit, ekki verið sem hagkvæmust fyrirmynd.