01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í C-deild Alþingistíðinda. (3624)

173. mál, skólahald næsta vetur

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefi komið fram með brtt. á þgskj. 724. Jeg verð að biðja afsökunar á því, að hún fellur ekki vel inn í meginmál tillögunnar. Það er mjer að kenna, en ekki skrifstofunni. Jeg hafði ekki gætt þess nógu vel, hvernig till. var orðuð. Brtt. er komin fram af því, að jeg er sömu skoðunar og þeir, sem talað hafa um það, að aðalástæðan til þess að loka skólanum sje sú, ef ekki verður nægilegt efni fyrir hendi af því, sem skólarnir þurfa á að halda. Væri því vert að athuga, hvort ekki mætti finna miðlunarleið. Þetta var aðalástæðan, bæði hjá hv. frsm. (M.P.) og hjá hæstv. forsætisráðherra. — Þeir gátu þess báðir, og fleiri hafa tekið í sama strenginn, að sparnaðarástæðan væri ljett á metunum, en það er þó önnur ástæðan, sem gæti komið til greina. En fyrst að þetta er aðalástæðan, að ekki sje hægt að afla skólunum þess, sem þeir þurfa á að halda, og sparnaðarástæðan sje ekkert tekin til greina, þá leiðir af því, að þeir skólar, sem eru undir það búnir, ættu þá að fá að starfa með því fje, sem fjárlögin ákveða. Og ef það eru skólar, sem njóta að eins styrks úr landssjóði, þá er ekki rjett að skerða þann styrk, sem þeim er ætlaður, ef þeir sjá sjer fært að starfa fyrir hann. Ef það væri gert, þá væri það af sparnaðarástæðum. Jeg get talið upp ýmsa skóla úti um land, sem eru undir þetta búnir.

Kostnaður nemenda við það að ganga í skólana verður auðvitað mikill, og er rjett á það að líta, að menn takmarki sig sem mest. En um það er líka öðru máli að gegna, um skóla úti um land. Þar er kostnaðurinn ekki eins mikill og við kaupstaðarskólana. Það er ekki rjett að stöðva þá skóla, sem geta starfað fyrir venjulegan styrk og eru þegar vel á veg komnir með að búa sig undir það. Þess er að gæta, að þeir, sem um skóla þessa sjá, hafa búið sig undir það að halda þeim uppi með yfirlögðu ráði og eru viðbúnir að mæta hvaða teppu sem er. Skólar úti um land eiga hægra með að afla sjer eldsneytis. Sumir hafa viðað að sjer innlend kol. Aðrir hafa látið vinna að mótekju í sumar eða jafnvel getað dregið að sjer rekavið. Getur verið, að þetta nái ekki til skóla í kauptúnum eða bæjum úti um land, svo að þeim verði að loka. En það er þá ekki af sparnaðarástæðunni, heldur af hinu, að til þeirra vantar efni. Jeg tel því rjett að samþykkja þessa brtt. Ef það verður ekki gert, þá er það bara sparnaðarástæðan sem ræður. Hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að bændaskólarnir mundu vera undir það búnir að starfa. Það sýnir einmitt, að aðrir skólar geta verið eins vel staddir. Þess vegna er ástæða til að veita stjórninni heimild til að veita þeim skólum fullan styrk, sem treysta sjer til að starfa fyrir hann, svo að ekki verði þeir stöðvaðir, bara til að spara landssjóði útgjöld.