13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

13. mál, einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg vil að eins lýsa yfir því, fyrir hönd landsstjórnarinnar, að hún aðhyllist brtt þær við frumv., sem hjer hafa verið bornar fram og skráðar eru á þingskj. 173 og þingskj. 211, enda eru þessar brtt. í fullu samræmi við það, er landsstjórnin lagði til, er hún bar frv. fram.

Landsstjórnin lagði til, að álagningin næmi 6 % af verði steinolíunnar, en það er hið sama og tæpar tvær kr. á fatið með venjulegu steinolíuverði í meðalári. Þetta er því nærfelt hið sama og brtt. á þingskj. 173 fer fram á, þar sem skattupphæðin er gerð 2 kr. á fatið.

Brtt. á þingskj. 211 fer fram á, að arðurinn skiftist að jöfnu á milli landssjóðs og veltufjár- og varasjóðs verslunarinnar, og er það hið sama og landsstjórnin lagði til í frumv. sínu, en háttv. Nd. breytti því; stjórnin varð þar í minni hluta um þetta. En eftir umræðunum í háttv. Nd. og öðru skil jeg ekki, að háttv. Nd. geri þessi atriði að kappsmáli.

Jeg vil því mæla með því, að báðar brtt nái fram að ganga.