04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í C-deild Alþingistíðinda. (3655)

75. mál, endurskoðun vegalaganna

Atvinnumálaráðherra (S.J.):

Það er ekki vert að þreyta þolinmæði þingmanna með langri svarræðu. Þó verð jeg að treysta því, að jeg fái tóm til að taka fram helstu atriðin, sem þetta mál varða. — Þessi þingsályktun, sem vitnað er til, á líklega rót sína að rekja til annarar þingsályktunartillögu, frá þinginu 1914. Hún var í tveimur liðum og kom frá Nd. Jeg hefi ekki athugað, hvort nokkuð hefir verið um þá þingsályktun skeytt. Þessi, sem nú er um að ræða, fer í líka átt. Og jeg skal geta þess, þótt ekki skifti það miklu máli, að tillagan var að eins frá Nd., en ekki frá þinginu í heild sinni, eins og hv. fyrirspyrjandi (S.S.) vildi ranglega benda til. Eins og hann tók fram er tillagan í þremur liðum.

1. liður skorar á stjórnina að leggja fyrir þingið — ef tími vinst til — frv. til laga um flokkun og viðhald vega. Fyrirspyrjandi (S.S.) mintist á, að fyrv. ráðh. (E.A.) hefði lagt málið fyrir landsverkfræðinginn. Það er rjett, að málið var borið undir hann, í tilefni af þingsályktunartillögunni frá 1914. Hann ljet þá í ljós það álit sitt, að hann sæi enga verulega ástæðu til að koma með frv. til nýrra vegalaga. Svo var aftur, um síðastliðið nýár, beint til hans þingsályktuninni frá 1915. Vísaði hann þá til svars síns hið fyrra sinn og benti um leið á það, að hann ætti að eins skamma stund eftir að gegna landsverkfræðingsstörfum. Væri því vel við eigandi, að sá, sem við tæki af sjer, ljeti uppi álit sitt um málið. Nýja landsverkfræðingnum var strax fengið málið í hendur, en frá honum er ekkert svar komið enn, sem naumast er heldur að vænta. Frá verkfræðinganna hlið eru því engar sjerstakar hvatir til stjórnarinnar komnar um að koma fram með nýtt frv. til vegalaga. Og af því að stjórnin mun hafa litið líkt og verkfræðingarnir á þetta mál, þá er ekki frekari aðgerða að vænta, að svo komnu máli.

Hv. fyrirspyrjandi (S.S.) tók það fram, að mikil óánægja með vegalögin hefði verið látin í ljós. Óánægjan getur verið til, en ekki hefir mikið á henni borið. Til stjórnarinnar eyrna hefir hún ekki komist, nema það, sem kann að felast í þingsályktuninni og í því, sem háttv. flm. (S.S.) hefir nú tekið fram. Það sem bægt var að gera í tilefni af tillögunni, hefir verið gert. Álits landsverkfræðings hefir verið leitað. Hann óskaði ekki neinnar endurskoðunar, og stjórnin hefir athugað málið og ekki fundið neina ástæðu til að vera á annari skoðun. Af þessum ástæðum hefir stjórnin ekki lagt fram neitt nýtt frumvarp.

2. liður tillögunnar hljóðaði um nýja tekjustofna til viðhalds vegunum. Landsverkfræðingurinn áleit enga brýna þörf að leita að nýjum tekjustofnum. Jeg lít líka svo á, að engin ástæða sje til að finna aðra tekjustofna en sýslusjóðina, til að annast viðhald veganna, eða búa til nýja tekjustofna handa sýslusjóðunum. Hina gildandi tekjustofna þekkja allir háttvirtir deildarmenn, og hitt hlýtur þeim einnig að vera ljóst, að skattaálöguvald sýslunefnda er mjög ríflega úr garði laganna gert. Hjer er því engin brýn þörf til breytinga, nema þá í sambandi við almenna breytingu á skattalöggjöfinni í heild sinni. Enda var þetta atriði tekið til athugunar af milliþinganefndinni í skattamálunum, og þarf jeg eigi því að lýsa, hvernig sú nefnd leit á þetta atriði. Það var fráleitt, að landsverkfræðingurinn legði til, að þessu yrði breytt, og stjórnin hefir eigi haft aðstöðu til að taka skattamálin í heild sinni til endurskoðunar. Hverjum einstaklingi, sem finnur hjá sjer köllun og kraft til breytinga á skattalöggjöfinni, er í lófa lagið að koma fram með frumvörp þar að lútandi hjer á þinginu.

Án þess að vilja fara í orðakast við hv. fyrirspyrjanda (S.S.),þá get jeg ekki annað en látið það uppi, að hann hefir ekki verið hikandi við það á undanförnum tímum að eiga frumkvæði að frumvörpum, þegar hann hefir talið þess þörf, og gæti hann því eins hreyft þessu máli, ef honum finst brýn nauðsyn bera til.

3. atriði tillögunnar, sem er vitanlega þýðingarmest, er ekki auðvelt að svara að svo stöddu. Reynsla þessarar nýbreytni í vegalagningu er enn þá svo stutt, að tæplega er hægt að ætlast til, að hægt sje að gefa ábyggilega skýrslu um kostnaðinn við þá aðferð, eins og tillagan ætlast til. Jeg skal að eins taka það fram, að nú er meðal annars alment farið að hafa ræsi öll steinsteypt og fjölförnustu vegakafla grjótborna, „púkkaða“, en þetta er alt í byrjun. Einnig hefir landsverkfræðingurinn lagt mikla áherslu á að útvega tæki til þess að steinleggja vegi. En nú er ekki hægt að ná í þau, vegna samgangnaskorts, enda ekki góður kostur að útvega þau erlendis nú sem stendur. Þessum athugunum verður haldið áfram af verkfræðingi landsins. Enn eru þær ekki komnar svo langt, að hægt sje að skera úr, hvað best sje. En þeim verður haldið áfram, hvað sem öllum þingsályktunum og tillögum líður. Jeg skal þá ekki fara fleirum orðum um þetta mál, en varnir stjórnarinnar eru þessar:

1. Að ekki hafa komið fram ákveðnar raddir, er geri fært að koma fram með gagngerðar breytingar á vegalögunum.

2. Að svo virðist, sem sýslufjelögin geti vel borið viðhald veganna, og að þeim beri að gera það.

3. Að tilraunir þær, sem gerðar hafa verið í seinni tíð, í tilbreytni við vegagerðir, eru svo skamt á veg komnar, að föst ákvörðun um gerð vega verður ekki tekin að svo stöddu.