13.09.1917
Neðri deild: 59. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í C-deild Alþingistíðinda. (3687)

182. mál, flutningsgjald á landssjóðsvörum

Einar Arnórsson:

Mjer skilst, að samkvæmt 42. gr. þingskapanna sje ekki leyfilegt að bera upp tillöguna um það að vísa málinu til stjórnarinnar, því að jeg má segja, að einhver var búinn að tala á eftir flm. dagskrárinnar (St.St.) áður en hv. 1. þm. Árn. (S.S.) kom með þessa tillögu. En í 42. gr. þingskapanna stendur það berum orðum, að tillagan skuli fram borin áður en nokkur annar en flm. tekur til máls.

Jeg get ekki fallist á skýringu hæstv. forsætisráðh. á því, að það sje ekki ályktun að vísa máli til stjórnarinnar. Að vísu stendur í 42. gr. stjórnarskrárinnar, að vísa megi til stjórnarinnar, ef ekki sje gerð ályktun, en með því er auðvitað átt við ályktun um efni málsins. En sje máli vísað til stjórnarinnar, þá er að eins gerð ályktun um meðferð þess, en ályktun er það engu að síður. Jeg álít því, að ekki sje heimilt að bera þessa dagskrá undir atkvæði, og það hafi líka verið óheimilt með þær dagskrár, sem áður hafa verið bornar upp, bæði hjer og í hv. Ed. Annars geta skoðanir manna á því verið skiftar, hvort dagskrá sje leyfileg eða ekki. Mönnum er heimilt að leggja sinn skilning inn í orð þingskapanna, ef sá skilningur getur staðist. En tilgangur þingskapanna með því að banna að gera ályktanir út af fyrirspurn, er auðvitað sá, að fyrirbyggja það, að komið sje með neitt það undir atkvæði, sem menn hafa ekki átt kost á að átta sig á. Ef þetta ákvæði væri ekki, þá væri hægt að koma með tillögur eða dagskrár og knýja þm. til að greiða atkvæði um þær án alls fyrirvara, ef málið er borið fram sem fyrirspurn. Ef þetta er látið dynja yfir menn óviðbúna, þá er engin trygging fyrir því, að þeir geti áttað sig á því, sem um er að ræða. Jeg held mjer við það, að hvorugt sje leyfilegt að bera undir atkvæði, tillöguna eða dagskrána.