15.09.1917
Efri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (3740)

Þinglenging

Forseti:

Með því að ljóst var, að Alþingi gat ekki orðið lokið í dag, þá fórum við forsetar Alþingis á fund hæstv. forsætisráðherra og óskuðum, að þingtíminn yrði framlengdur til mánudags 17. þ. m. Samkvæmt umboði frá hans hátign konunginum framlengdi hæstv. forsætisráðherra þingið til 17. þ. m. Frá þessu vil jeg skýra hv. Ed.

Ýmsir hv. þm. hafa kvartað yfir því við mig, að skipaferðum sje nú svo háttað, að þeir hafi engan tíma til að búast til ferðar; þeir verði að fara svo að segja beint úr þinghúsinu á skipsfjöl. Jeg hefi því átt tal við hæstv. stjórn um það, hvort hún gæti eigi breytt strandferðunum svo, að úr þessu yrði bætt, því að jeg lít svo á, að það sje vart boðlegt þingmönnum, að þeir sjeu reknir eins og skepnur úr stíu beint á skipsfjöl. En gæta verða hv. þm. þess, að nú eru vandræðatímar og erfitt um samgöngur, og hefir landsstjórnin því ekki getað orðið frekar við þessum tilmælum en svo, að strandferðaskipið fer ekki fyr en á miðvikudagsnótt.

Loks vil jeg gera grein fyrir því, að við eigum nú ekki önnur ólokin mál hjer í háttv. Ed. en þau 2 frv., er voru hjer til annarar umræðu í dag, og svo fjárlögin.