22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (3796)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Sveinn Ólafsson:

Við 1. umr. þessa máls hreyfði jeg mótmælum gegn því, Jeg hefði helst kosið, að frv. hefði verið felt hreinlega og ekki þurft neinar varatillögur. Jeg get ekki sjeð, að landssjóði verði verulegur tekjuauki að þessari hækkun. Brjefa- og póstsendingaviðskifti manna mundu minka að stórum mun, og á þessum tímum eru póstgöngur þar að auki mjög takmarkaðar. Auk þess tel jeg, eins og háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), óviðfeldið að tolla andleg viðskifti manna. Póstgöngurnar eru nær eina leiðin fyrir andlegt samneyti manna utan heimilisins. Enda er það stefna allra menningarþjóða að gera þær eins auðveldar og ódýrar almenningi og hægt er. Þar að auki kæmi hækkun þessi á burðargjaldi innanlands afkáralega fram í reyndinni. Það væri ætíð vangoldið fyrir sendingar frá útlöndum, ef þær þyrftu að fara yfir land, en afleiðingin yrði, að viðtakandi hver yrði að tvígjalda þetta tvöfalda burðargjald. Hækkunin mundi draga úr andlegum viðskiftum manna, færa pósttekjur niður og verða þunglamaleg í framkvæmdinni, eins og jeg hefi sagt. Jeg er því frv. í heild sinni algerlega mótfallinn og tel það með öllu óalandi.