05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Einar Arnórsson:

Jeg skal vera stuttorður. Aðalatriðið er það, hverri nefnd verði falið málið. Jeg held fast við þá skoðun, að það eigi ekki heima í fjárveitinganefnd; get jeg um það skírskotað til þess, sem jeg tók fram áðan, og til orða háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Jeg vil benda háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) á það, hverjar afleiðingar yrðu, ef fylgt væri staðfastlega fram kenningu hans. Þá ætti t. d. Flóaáveitan að koma til fjárveitinganefndar og yfirleitt öll frv., sem fela í sjer fjárframlög úr landssjóði. Jeg býst við, að um það bil, sem hv. fjárveitinganefnd hefir karað öll þau frv., mundu margir háttv. þm. taka að gerast heimfúsir. Að minsta kosti munu menn játa það, að þetta er ekki hentugt vinnulag.

Það er ekki rjett hjá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að hjer sje að eins um fjárhagsatriði að ræða; í frv. felast einmitt mörg fleiri atriði, og fjárhagsatriðið er sú hlið málsins, sem síst orkar tvímælis; það er tvímælalaust sama sem að steindrepa málið, ef t. d. frv. væri breytt svo, að sýslufjelaginu væri ætlað að borga helming eða ? verksins.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) má ekki taka orð mín svo, að mig langi til að krukka í frv., þótt jeg vilji vísa því til allsherjarnefndar; það mundi jeg gera án þess, ef mjer litist svo.

En sannleikurinn er sá, að frv. þetta á í eðli sínu ekki heldur heima í landbúnaðarnefnd, ekki fremur en t. d. varnargarðar fyrir sjávarágangi. Sjerþekking, er þarf um þetta mál, sem sje verkfræði, er ekki til í þinginu; hana verðum vjer að sækja annarsstaðar að, frá verkfræðingum landsins. Hjer þarf þá hvorki fjárhagsþekking nje landbúnaðarþekking, heldur verkfræðiþekking. Að því leyti má því segja, að sama sje, hverri nefnd sje falið málið, en það skilur, að afleiðingarnar yrðu óheppilegar, ef öllum slíkum málum ætti að vísa til fjárveitinganefndar.